132. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2005.

Skipulag ákæruvalds í kjölfar niðurstöðu Hæstaréttar.

[14:17]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Frú forseti. Meðferð opinbers máls má skipta í þrennt, rannsókn, ákærustig og dómsmeðferð. Ríkissaksóknari fer með ákæruvald vegna þeirra brota sem þyngst refsing liggur við og í sjaldgæfari og vandasamari opinberum málum. Þetta eru t.d. stórfelld fíkniefnabrot, manndráp, meiri háttar líkamsmeiðingar, kynferðisafbrot, rán og fjárkúganir. Lögreglustjórar höfða önnur opinber mál en þau sem ríkissaksóknari höfðar og eru það t.d. þessi algengustu brot sem við þekkjum en síðan fer ríkislögreglustjóri með bæði rannsóknar- og ákæruvald í skatta- og efnahagsbrotum og eru þau brot rannsökuð í sérstakri deild hjá því embætti.

Vinnubrögð ríkislögreglustjóraembættisins í nokkrum veigamiklum málum undanfarin missiri vekja að sjálfsögðu upp spurningar sem lúta bæði að hæfni embættisins til að sinna slíkum verkum sem og sjálfu fyrirkomulaginu. Er það heppilegt að ríkislögreglustjóri rannsaki og taki síðan ákvörðun um hvort ákæra skuli gefin út á grundvelli þeirrar rannsóknar sem hann sjálfur hefur staðið fyrir.

Við höfum nú þegar sérstakt embætti ríkissaksóknara sem er æðsti handhafi ákæruvaldsins í landinu. Ef til vill hentar það betur að efnahagsbrot sem varða oft gríðarlega hagsmuni, eins og nýjustu dæmin sýna, verði áfram rannsökuð hjá ríkislögreglustjóra en ákveðnar ákærur verði alfarið hjá ríkissaksóknara. Þannig er þetta í öðrum veigamiklum málum og eiga efnahagsbrot ekki heima í þeim flokki? Með því fengjum við aðskilnað milli rannsóknarvalds og ákæruvalds í þessum mikilvægu málum og annar óháður aðili kæmi að málinu sem gæti metið framhaldið sjálfstætt. En ég tel a.m.k. að tilefni undanfarinna mánaða eigi að hvetja okkur, og sérstaklega hæstv. dómsmálaráðherra, til að skoða þetta fyrirkomulag vel og mig langar að fá fram afstöðu hæstv. ráðherra til þessara hugmynda um aðskilnað rannsóknar og ákæruvalds.