132. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2005.

Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi.

189. mál
[14:41]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi.

Með frumvarpinu er lagt til að gerðar verði nauðsynlegar breytingar á lögum um Schengen-kerfið á Íslandi vegna fjögurra gerða Evrópusambandsins sem okkur ber skylda til að innleiða í samræmi við þjóðréttarlegar skuldbindingar okkar. Þrjár þeirra eru komnar til vegna baráttunnar gegn hryðjuverkum en sú fjórða vegna aukinna bílþjófnaða í aðildarríkjunum.

Vegna fjölgunar aðildarríkja Evrópusambandsins er unnið að stækkun á Schengen-upplýsingakerfinu. Fyrirhugað er að breytingar vegna stækkunarinnar taki gildi á árinu 2007. Með þeim ákvæðum sem kynnt eru í frumvarpinu er búið í haginn fyrir þessar breytingar og einkum litið til tæknilegra þátta. Lagt er til að fjölgað verði því sem hægt er að skrá í kerfið en við bætast t.d. skip, bátar, loftför, atvinnutæki og gámar og einnig fleiri tegundir skjala, svo sem ferðaskilríki, dvalarleyfi, hlutabréf og skuldabréf sem hefur verið stolið, hafa verið seld ólöglega eða hafa horfið.

Í öðru lagi er gert ráð fyrir miðlun sérstakra viðbótarupplýsinga í tengslum við skráningu í kerfið. Þessar upplýsingar eru ekki skráðar í kerfið sjálft heldur geta verið til í skrám hjá þar til bærum yfirvöldum í hverju aðildarríki. Þær geta reynst nauðsynlegar þegar einstaklingur eða hlutur sem skráður hefur verið í kerfið finnst svo hægt sé að grípa til viðeigandi aðgerða. Upplýsingarnar má ekki geyma lengur en nauðsynlegt er í samræmi við tilgang skráningarinnar og aldrei lengur en í eitt ár eftir að skráningu viðkomandi einstaklinga eða hlut hefur verið eytt í upplýsingakerfinu.

Í þriðja lagi er lagt til að fleirum verði bætt í hóp þeirra sem hafa beinlínuaðgang að upplýsingakerfinu. Gerðirnar kveða á um að heimilt sé að veita dómsmálayfirvöldum í aðildarríkjum slíkan aðgang, þar með talið þeim sem fara með saksókn. Í samræmi við það er lagt til að ríkissaksóknari fái slíka heimild en þeir sem fara með saksókn í héraði hafa þessa heimild samkvæmt núgildandi lögum og eðlilegt þykir að ríkissaksóknari hafi sömu heimild.

Þá er einnig í einni gerðanna kveðið á um að þeim yfirvöldum sem sjá um skráningu bifreiða verði heimilaður beinlínuaðgangur að kerfinu. Sá aðgangur er þó verulega takmarkaður, væri einungis til upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að kanna hvort ökutækjum hefur verið stolið eða þau seld ólöglega. Ákvæðinu er ætlað að sporna við skipulögðum bílþjófnuðum yfir landamæri. Umferðarstofa sér um skráningu ökutækja hér á landi og er því lagt til að hún fái þessa heimild.

Í fjórða lagi er í frumvarpinu lagt til í samræmi við áskilnað gerðanna að aðgangur Útlendingastofnunar að upplýsingakerfinu verði rýmkaður lítillega. Samkvæmt gildandi lögum hefur Útlendingastofnun beinlínuaðgang að upplýsingum um endurkomubann vegna brottvísunar útlendinga. Samkvæmt frumvarpinu verður stofnuninni veittur sambærilegur aðgangur að upplýsingum um persónuskilríki og óútfyllt skilríki sem hafa horfið, verið stolið eða seld ólöglega.

Loks er í frumvarpinu gert ráð fyrir að reglur sem gilda um tímamörk eyðingar gagna verði einfaldaðar en um það er fjallað í 5. gr. frv.

Virðulegi forseti. Ég hef gert grein fyrir meginefni frumvarpsins og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjarnefndar og 2. umr.