132. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2005.

Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi.

189. mál
[14:45]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Frú forseti. Við fjöllum um frumvarp hæstv. dómsmálaráðherra sem lýtur að því að innleiða fjórar gerðir Evrópusambandsins en til þess þarf að breyta lögum um Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi. Þær hafa einkum í för með sér að fjölgað er tegundum upplýsinga sem hægt er að skrá inn í Schengen-upplýsingakerfið. Miðlun nauðsynlegra viðbótarupplýsinga í tengslum við skráningu kerfisins er auðvelduð og fleirum veittur aðgangur að því en áður. Að sama skapi eru ákvæði um eyðingu upplýsinga einfölduð og sérstök ákvæði eru sett um eyðingu viðbótarupplýsinga og eftirlit með aðgangi að kerfinu hert.

Meðal breytinga sem hægt er að finna í frumvarpinu er að tegundum þess sem hægt er að skrá inn í kerfið er fjölgað. Þar bætast við fleiri tegundir farartækja og hluta, t.d. skip, bátar, loftför, atvinnutæki, gámar og síðan ákveðnar tegundir skjala, svo sem ferðaskilríki, dvalarleyfi, hlutabréf og skuldabréf. Fleiri aðilum bætt í hóp þeirra sem hafa beinlínuaðgang að upplýsingakerfinu og gerðirnar kveða á um að heimilt sé að veita dómsmálayfirvöldum í aðildarríkjum beinlínuaðgang þar með talið þeim sem fara með saksókn.

Eins og kemur fram í greinargerð frumvarpsins er það lagt fram vegna fjögurra gerða Evrópusambandsins sem hæstv. dómsmálaráðherra segir skylt að innleiða í okkar rétt. Mig langar þó að spyrja hæstv. dómsmálaráðherra hvort þetta frumvarp gangi lengra en þörf krefur. Er þessi leið eina leiðin sem gerðirnar áskilja okkur að fara eða er eitthvað brugðið út af þeim varðandi efnisatriði þeirra, en gerðirnar sjálfar fylgja ekki með frumvarpinu?

Í mínum huga er mikilvægt að íslenskir ríkisborgarar geti ferðast hindrunarlítið á milli landa og ég tel nauðsynlegt að tryggja að Íslendingar sem og aðrir EES-borgarar hafi sama rétt og ESB-borgarar hvað varðar ferðafrelsi milli þessara landa.

Við í allsherjarnefnd munum að sjálfsögðu skoða þetta mál mjög vel. En mig langar að vekja athygli á stöðu flóttamanna í ljósi f-liðar í 1. mgr. 1. gr. frumvarpsins. Þetta er nýtt ákvæði. Eins og við vitum geta flóttamenn verið með fölsuð eða stolin skilríki. Ég geri ráð fyrir að þessar gerðir séu í fullu samræmi við flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna en ef hæstv. ráðherra vill eitthvað bæta stöðu flóttamanna jafnframt þessu frumvarpi þá væri ágætt að heyra af því núna.

Frumvarpið vekur sömuleiðis spurningar um fórnarlömb mansals, sem sömuleiðis hafa oft fölsuð eða stolin skilríki. Í þessu samhengi tel ég að skoða ætti Palermo-samninginn og hvort eitthvað sé í þessu sem fari í bága við þann samning.

Í þriðja lagi munum við að sjálfsögðu skoða þetta í allsherjarnefnd út frá persónuvernd. Mig minnir að í 18. gr. þeirra laga, um persónuvernd, sé fjallað um að Persónuvernd sem stofnun eigi að hafa eftirlit með því að skráning og meðferð persónuupplýsinga í upplýsingakerfi sé í samræmi við reglur um persónuvernd og friðhelgi einkalífs. En við í allsherjarnefnd fáum án efa heimsókn frá fulltrúum Persónuverndar í tengslum við það.

Enn eitt atriði mætti hæstv. ráðherra endilega koma inn á en það varðar 3. gr. frumvarpsins. Þar er talað um að ríkislögreglustjóra sé heimilt að veita þar til bærum yfirvöldum í öðru Schengen-ríki nauðsynlegar viðbótarupplýsingar í tengslum við skráningu í upplýsingakerfið. Mig langar að forvitnast um hvort hæstv. dómsmálaráðherra geti nefnt dæmi um slíkar viðbótarupplýsingar, hvort hann hafi á takteinum hver hugsunin er með heimild um að bæta við viðbótarupplýsingum.

Á þessu stigi ætla ég ekki að gera frekari athugasemdir. Mig minnir að málið hafi verið lagt fram með svipuðu sniði í fyrra. Það var þá ekki afgreitt frá allsherjarnefndinni. En við í allsherjarnefnd munum skoða málið vel, bæði út frá stöðu flóttamanna, út frá stöðu fórnarlamba mansals og ekki síst út frá stöðu persónuverndar.