132. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2005.

Fjarskiptasjóður.

191. mál
[15:01]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um fjarskiptasjóð. Frumvarpið er lagt fram í framhaldi af frumvarpi til laga um ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf., sem liggur fyrir virðulegu Alþingi, og tekur hliðsjón af því. Með þessu frumvarpi er lagt til að stofnaður verði sérstakur sjóður til að fjármagna framkvæmdir á sviði fjarskiptamála í samræmi við þingsályktun um fjarskiptaáætlun. Í frumvarpinu er einnig kveðið á um stjórn og skipulag sjóðsins. Með þessu er styrkari stoðum rennt undir ályktun Alþingis um stefnu í fjarskiptamálum fyrir árin 2005–2010 sem ég lagði fram á hinu háa Alþingi síðasta vor og var samþykkt 11. maí sl.

Í þeirri þingsályktunartillögu og þeirri þingsályktun er sett fram stefna stjórnvalda í fjarskiptamálum til ársins 2010, eins og fyrr segir, og lagður grunnur að aðkomu þeirra að grunnþáttum upplýsingasamfélagsins til næstu ára. Samhliða samþykkt fjarskiptaáætlunar samþykkti Alþingi breytingar á fjarskiptalögum sem lögfesta gerð fjarskiptaáætlunar og reglulega endurskoðun hennar í ljósi þróunar og breyttra aðstæðna á hverjum tíma. Eins og þekkt er er þróunin á sviði fjarskipta geysilega hröð og mikilvægt að horfa til allra átta þegar verið er að fjalla um þau málefni og þátttöku og þátt stjórnvalda í þeim.

Meginmarkmið með stofnun sjóðsins er að koma skipulagi á fjármögnun ríkisins og aðkomu þess að uppbyggingu fjarskipta í landinu. Miðað er við að fjarskiptasjóður taki þátt í kostnaði við verkefni fjarskiptaáætlunar sem ætla má að ekki verði ráðist í á markaðslegum forsendum. Þau snúa einkum að uppbyggingu stofnkerfa fjarskipta, stuðla að öryggi fjarskipta í landinu og samkeppnishæfni þjóðarinnar.

Einkum er lögð áhersla á að sjóðurinn fjármagni uppbyggingu GSM-senda á hringveginum, helstu stofnvegum og á fjölförnum ferðamannastöðum. Einnig er miðað við að sjóðurinn taki þátt í kostnaði við dreifingu stafræns sjónvarps um gervihnött með stórbætta þjónustu fyrir sjófarendur að meginleiðarljósi.

Loks er gert ráð fyrir að sjóðurinn taki þátt í kostnaði við uppbyggingu á háhraðatengingum á þeim svæðum sem ætla má að ekki verði þjónað á markaðslegum forsendum. Ekki er gert ráð fyrir að um verði að ræða beina ráðstöfun fjár til einstaklinga eða einstaklingsbundinna verkefna. Gert er ráð fyrir að þátttaka sjóðsins í einstökum verkefnum uppfylli öll skilyrði um gagnsæi og hlutlægni og að farið verði að ákvæðum fjarskiptalaga um útboð verkefna. Þá verði í samræmi við heimildir laganna miðað við að Póst- og fjarskiptastofnun sjái um framkvæmd útboða, samningsgerð og eftirlit með þeim.

Samgönguráðherra skipar fimm menn í stjórn fjarskiptasjóðs til þriggja ára í senn. Stjórn sjóðsins er jafnframt verkefnisstjórn sem hefur yfirumsjón með framkvæmd fjarskiptaáætlunar, auk þess sem tilnefndir verða tengiliðir frá stofnunum eða öðrum ráðuneytum vegna framkvæmda einstakra verkefna sem undir þau heyra. Þá er í frumvarpinu mælt fyrir um að stjórn sjóðsins skili skýrslu um starfsemi sjóðsins til samgönguráðherra sem leggur hana fyrir Alþingi. Frumvarpið gerir ráð fyrir að sjóðurinn heyri stjórnskipulega undir samgönguráðuneytið.

Ríkissjóður leggur sjóðnum til stofnfé að fjárhæð 2.500 millj. kr., samanber framangreint frumvarp um ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf. Stjórn sjóðsins ákveður greiðslu fjárins til einstakra verkefna í samræmi við fjarskiptaáætlun og ákvæði fjarskiptalaga.

Eins og kemur fram í gildistökuákvæðinu er sjóðnum markaður tími til ársloka 2011. Gert er ráð fyrir að fyrir þann tíma muni liggja fyrir reynsla af verkefnum sjóðsins og þörf fyrir sjóðinn, endurskoðuð með hliðsjón af henni.

Hæstv. forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni umræðunni vísað til 2. umr. og hv. samgöngunefndar.