132. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2005.

Fjarskiptasjóður.

191. mál
[15:15]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er hlynntur því sem hér er verið að gera og ég ætla að koma betur að þessu máli á eftir. En spurning mín í stuttu andsvari við hæstv. ráðherra er eingöngu um stjórn sjóðsins samanber það sem segir í 3. gr. vegna þess að mér finnst ekki eins og verið sé að tala um sama hlutinn í athugasemdum um frumvarpið og svo í 3. gr. þar sem segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Stjórn sjóðsins er jafnframt verkefnastjórn fjarskiptaáætlunar ...“

En í athugasemdum við frumvarpið er hins vegar talað um að samgönguráðherra skipi stjórn sjóðsins sem jafnframt skipar verkefnastjórn. Svo er talað um að verkefnastjórn skipi fimm manna hópur. Ég veit ekki hvort ég misskil þetta, en þá kemur skýring frá hæstv. ráðherra. En mér finnst ekki eins og að verið sé að fara í sömu áttina. Ég held að það sé bara ágætt að fimm manna stjórn sé skipuð og að hún sé jafnframt þannig skipuð að þar sé fólk sem hafi fullt vit á þessu, peningahliðinni, ávöxtun sjóðsins og verkefninu og geti verið verkefnastjórn í leiðinni. En mér finnst að í athugasemdum sé talað um að það eigi að skipa sérstaka verkefnastjórn.

Virðulegi forseti. Mig langar að heyra útlistingar hæstv. samgönguráðherra á þessu atriði.