132. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2005.

Fjarskiptasjóður.

191. mál
[15:16]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þessa ábendingu. Ef þetta orðalag er óljóst er nauðsynlegt að ég skýri það út á þann veg að við gerum ráð fyrir að það séu sömu aðilarnir sem skipa stjórnina og eru í verkefnisstjórninni þannig að það fari ekki á milli mála að við viljum skipa þarna einstaklinga sem hafa þekkingu á fjármálaumsýslu, þ.e. skiptingu fjármuna til tiltekinna verkefna á sviði fjarskipta. Þarna þarf því að vera til staðar samfélagsleg þekking og þekking á sviði fjármálaumsýslu og fjarskipta. En það er alveg ljóst að ekki verður sett upp hátimbruð skrifstofa til að reka þennan sjóð. Það er nokkuð öruggt. Reynt verður að nýta þær stofnanir sem hafa fjármálaumsýslu þegar á sinni könnu. Hafnabótasjóður hefur t.d. verið rekinn árum saman og haft það hlutverk í gegnum tíðina að hlaupa undir bagga með sveitarfélögum þegar tjón verður á hafnargörðum eða hafnarmannvirkjum. Í gegnum Hafnabótasjóð flæða núna samkvæmt nýrri löggjöf fjárveitingar til hafnargerðar. Hann hefur verið vistaður hjá Seðlabankanum. Það er því ekki verið að leggja af stað með nýja bankastofnun, svo að það sé alveg ljóst, heldur er reynt að hafa þetta eins hagkvæmt og vel undirbúið og nokkur kostur er og m.a. með því að sami hópur manna skipi stjórn sjóðsins og verkefnastjórnina.