132. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2005.

Fjarskiptasjóður.

191. mál
[15:30]
Hlusta

Guðmundur Hallvarðsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Við erum sammála um tvennt. Í fyrsta lagi að ríkisstyrkt skipaútgerð á enga framtíð fyrir sér. Í annan stað að skoða þurfi gjaldskrá hafna sem kemur ekki við þær lagabreytingar sem gerðar voru um frjáls hafnargjöld og frjálsa álagningu á skipakomur í hafnir.

Við stöndum frammi fyrir því að þegar hefur farið fram nokkur athugun á kostnaði í höfnum versus kostnaði við losun og lestun á flutningabílum og það kom í ljós í skýrslu sem unnin var að það er allt upp í 800% kostnaðarmunur á losun og lestun skipa í höfnum og losun og lestun flutningabíla. Því hefur verið haldið fram að gjaldskrá hafna hafi í allt of ríkum mæli verið slík að óviðunandi hafi verið fyrir útgerðina að búa við, ég vil kannski ekki kalla það okur en við þá gjaldskrá sem við lýði var. Ég hef nefnt dæmi um vörugjald þar sem fiskverkandi í Sandgerði keypti afskurð af frystihúsi á Ísafirði. Fyrst var aflanum landað á Ísafirði og borgað aflagjald, síðan var afskurðurinn settur um borð í skip á Ísafirði og borgað vörugjald, honum var landað í Hafnarfirði og þar var greitt vörugjald, þá var hann fluttur til Sandgerðis þar sem hann var frystur, settur í pönnur, og aftur um borð í skip og borgað vörugjald í þriðja skipti. Þetta er náttúrlega óeðlilegt og það má segja að ástandið í strandsiglingum sé að hluta til þessi gjaldskrá hafna sem hefur haft mjög neikvæð áhrif á útgerðina.

Ég er sammála hv. þm. Kristjáni L. Möller að fara þarf rækilega ofan í þetta mál og skoða hvort ekki sé hægt að koma á strandsiglingum á ný en þá auðvitað í frjálsri samkeppni.