132. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2005.

Fjarskiptasjóður.

191. mál
[15:33]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég vildi leggja orð í belg og fagna sérstaklega því frumvarpi sem hér er lagt fram um fjarskiptasjóð og rifja aðeins upp söguna í því sambandi. Sjóðurinn er stofnaður þar sem sala Símans tókst ágætlega vel og með sölu hans skapaðist svigrúm til að koma þessum fjarskiptasjóði á, enda fara 2,5 milljarðar af söluverðmæti Símans til sjóðsins.

Í upphafi þegar kom til tals að selja Símann varð mikil umræðu um það mál í Framsóknarflokknum, í þingflokknum og á vettvangi flokksins, og sitt sýndist hverjum. Að lokum var ákveðið að styðja sölu Símans en við lögðum sérstaka áherslu á að byggja upp fjarskiptakerfi um allt land þannig að sem flestir landsmenn hefðu aðgang að sambærilegri þjónustu fyrir sambærilegt verð og að sjálfstæður sjóður yrði stofnaður í því skyni, þ.e. fjarskiptasjóður. Ég fagna því að málið hefur þróast í takt við að sem við vildum og er nú alveg að komast í höfn þar sem þetta frumvarp hefur verið lagt fram.

Það verður að segjast eins og er að fjarskipti á Íslandi hafa verið góð. Stundum má heyra á þingmönnum og ýmsum aðilum að þau hafi verið í slæmum farvegi en það er alls ekki svo. Á Íslandi höfum við búið við svokallaða alþjónustu. Ákveðin skilyrði voru sett í lög sem fjarskiptafyrirtæki og stjórnvöld hafa reynt að uppfylla sameiginlega, þ.e. ákveðin lágmarksskilyrði um þjónustu fyrir alla landsmenn, sérstaklega hvað varðar aðgengi að síma og háhraðatengingum. Því má segja að við höfum netvætt landið mun hraðar og mun víðtækar en flestar aðrar þjóðir og nú er svo komið að aðgengi að háhraðatengingum hérlendis er með því besta í heiminum, ég held að það sé hvergi betra. Notkun á háhraðatengingum er mjög mikil og netnotkun er óvíða eins útbreidd og hér á landi en árið 2004 notaði 81% einstaklinga netið á Íslandi og ekkert nágrannaríki toppar það, enginn er hærri. Í nágrannaríkjunum er notkunin að meðaltali 66–77% og í ESB um 50%.

Ég vil líka minnast á að notkun á farsíma er einnig með því mesta sem gerist í heiminum. Við teljum það ómissandi gæði að hafa aðgang að háhraðaneti og farsíma og þeirri tækni. Þess vegna er líka hollt fyrir okkur að rifja upp að það er ótrúlega stutt síðan þessi tækni hóf innreið sína, það eru t.d. einungis 16 ár síðan stafrænt samband fyrir internetið var opnað til útlanda og tveimur árum áður hafði verið opnað gagnaflutningsnet hér á landi. Hvað halda menn að sé langt síðan GSM-síminn var tekinn í notkun á Íslandi? Það eru 11 ár. Það er ótrúlega stutt síðan GSM-síminn kom til og núna þykir okkur GSM-síminn algerlega ómissandi og menn gagnrýna það mjög ef þeir hafa ekki GSM-samband alls staðar. Við skulum ekki gleyma því hve er stutt síðan þessi tækni hóf innreið sína og hvað við höfum þrátt fyrir allt verið öflug í að byggja hana upp.

Hvað varðar fjarskiptaáætlunina þá eru ákveðnar væntingar gerðar til hennar. Í henni kemur fram að allir landsmenn sem þess óska eigi að hafa aðgang að háhraðatengingum árið 2007 og að GSM-farsímaþjónusta eigi að verða aðgengileg á þjóðvegi 1 og öðrum helstu stofnvegum, helstu ferðamannastöðum og minni þéttbýlisstöðum að mig minnir árið 2006 þ.e. strax á næsta ári. Fjarskiptasjóður er því verkfæri til að tryggja að markmiðum fjarskiptaáætlunar verði náð.

Virðulegur forseti. Ég vil fagna sérstaklega þessu mikla framfaramáli og minna á að við höfum gert mjög vel. Það var erfitt að skikka fjarskiptafyrirtækin til að taka frekari skref þar sem ekki voru markaðslegar forsendur fyrir því en með sölu Símans skapaðist svigrúm fyrir stuðning af hálfu ríkisvaldsins til þeirra fyrirtækja sem munu keppa um þetta fé til að koma upp betri þjónustu fyrir landsmenn.

Ég tel ástæðu til að óska hæstv. samgönguráðherra til hamingju með þetta góða frumvarp og fagna því að það er einmitt í takt við vilja Framsóknarflokksins, þann vilja sem við komum á framfæri í upphafi þegar ákveðið var að selja Símann. Með frumvarpinu tryggjum við að landsmenn allir muni búa meira og minna við sömu þjónustu. Auðvitað munum við ekki ná hverjum einasta manni, hverjum einasta bæ í öllum tilvikum en við getum borið höfuðið mjög hátt og munum fara langt fram úr öðrum þjóðum varðandi aðgengi að háhraðatengingum og þjónustu fyrir GSM-símnotendur og skora hæst í öllum heiminum í þessu eins og svo mörgu öðru.