132. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2005.

Fjarskiptasjóður.

191. mál
[15:39]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mér skilst af ræðu hv. þingmanns að þetta sé allt saman Framsókn að þakka og framsóknarmenn hafi komið vitinu fyrir sjálfstæðismenn með stofnun þessa sjóðs og væri gaman að heyra það hjá hæstv. samgönguráðherra á eftir hvort svo hafi verið.

Ég kem aðallega upp til að veita andsvar við ræðu hv. þingmanns vegna þess að hún talaði um að fjarskiptin væru góð. Þau eru það sannarlega á hluta landsins en ég er ekki viss um að íbúar í Hrísey hefðu getað skrifað upp á það fyrir einu eða einu og hálfu ári síðan. Þeir þurftu sjálfir að taka sig til og borga allan stofnkostnað við að skapa sér háhraðasamband sem er náttúrlega mjög óréttlátt vegna þess að þeir sátu ekki við sama borð og íbúar í næsta byggðarlagi, t.d. Dalvíkurbyggð, sem fengu háhraðasambandið með því að Síminn setti upp tæki og tól til þess. Og ég er ekki viss um að íbúar t.d. á Raufarhöfn og öðrum stöðum séu heldur tilbúnir til að skrifa upp á þetta.

Mér datt í hug þegar hv. þingmaður talaði um þetta að ég heyrði ágæta sögu um háhraðatengingar austur á landi í kjördæmavikunni fyrir ári síðan. Þar töluðu sveitarstjórnarmenn fyrir nauðsyn háhraðatenginga og öðru slíku og þar var framsóknarmaður sem bjó á Hallormsstað sem keyrði niður á Egilsstaði til að prenta út gögn af netinu. Ég segi þetta, virðulegi forseti, til að andmæla því að fjarskiptin hafi alls staðar verið góð. Þau eru sannarlega góð á mörgum stöðum á landinu en það vantar marga.