132. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2005.

Fjarskiptasjóður.

191. mál
[15:45]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er rétt sem komið hefur fram að tækninni fleygir mjög mikið fram í þessum geira. En það verður samt ekki frá okkur tekið að alþjónustukröfurnar voru mjög framsæknar. Við sáum ekki sambærilegar kröfur hjá öðrum ríkjum og vorum að gera rétta hluti þar. En það er rétt að tækninni fleygir fram. Eins og fjarskiptaáætlun er núna á það almennt að vera svo að almenningur um allt land á að hafa aðgang að háhraðatengingum árið 2007.

Vissulega kann að koma ný tækni bráðlega sem við sjáum ekki fyrir og að okkur finnist þetta allt frekar úrelt eftir nokkur ár. Ég skal ekki segja til um það. Það er alveg geysileg þróun í þessari tækni, sérstaklega í símtækninni. En af því að hv. þingmaður var að tala um að hann vildi ekki nota ISDN af því að hann væri vanur ADSL þá verð ég að viðurkenna að stundum þegar maður notar ADSL þá finnst mér það líka hægvirkt. Menn gera svo miklar kröfur um hraða í dag. Sé eitthvað hraðvirkara í boði fyrir lítinn pening þá mundi maður auðvitað vilja það.