132. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2005.

Fjarskiptasjóður.

191. mál
[16:05]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðeins út af því sem fram kom í ræðu hv. þm. Jóns Bjarnasonar um að nauðsynlegt sé að þetta fari í gegnum fjárlög. Allt er það rétt enda gerum við ráð fyrir að sjálfsögðu að fjarskiptasjóður sé á fjárlögum. Við höfum það einmitt í fjáraukalagafrumvarpinu fyrir árið 2005 að þar er fjárveiting til fjarskiptasjóðs sérstaklega tilgreind 1 milljarður kr. á þessu ári og fjarskiptasjóður hefur þar með, þegar búið er að afgreiða fjáraukalögin, milljarð til þess að vinna að fyrstu verkefnunum á sviði uppbyggingar fjarskiptakerfa í dreifbýli í samræmi við fjarskiptaáætlun að sjálfsögðu. Þar ber fyrst að telja uppbyggingu GSM-símkerfanna á þjóðvegum og helstu ferðamannastöðum. Það er því allt saman í fullkomlega eðlilegum farvegi.

Mér heyrist satt að segja að hv. þingmaður sé að færast alltaf nær okkur í þessu máli og sé alltaf að átta sig betur og betur á því að við erum algjörlega á hárréttri leið þegar hann er farinn að leggja alveg sérstaka áherslu á að nauðsynlegt sé að fara eftir þeim nótum sem við höfum verið að leika eftir og birtast m.a. í frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2005 þar sem útdeilt er fjármunum til fjarskiptasjóðs.