132. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2005.

Fjarskiptasjóður.

191. mál
[16:06]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég dreg ekki í efa einlægan áhuga hæstv. ráðherra til að bæta og efla fjarskipti í landinu, persónulegan áhuga hans til þess, það geri ég ekki. Ég tel að hann hafi a.m.k. í orði og að sumu leyti í verki sýnt að hann hafi einlægan áhuga til að gera það, ég dreg það ekki í efa. Hann hefur á margan hátt haldið þeim málstað öflugt fram þó svo að árangurinn hafi ekki orðið með þeim hætti sem við hefðum viljað sjá.

En enn þá er stjórnsýslulega óljóst hvernig með meðferð á þessu fé og þessari áætlun skuli farið. Það er töluverður munur á því hvort fjármagni er úthlutað í samræmi við fjarskiptaáætlun eða samkvæmt fjarskiptaáætlun. Ég hefði viljað sjá að þarna stæði að fjármagn yrði veitt úr sjóðnum samkvæmt fjarskiptaáætlun, áætlun sem Alþingi hefði þá samþykkt þar sem kvæði á um forgangsröðun á þeim atriðum sem þar væru. En ef það væri samræmi er það, eins og reyndar frumvarpið gerir ráð fyrir, þessi sjóðstjórn sem er skipuð af ráðherra sem á í rauninni að fara með það vald — þá leiðréttir hæstv. ráðherra mig — sem á að fara með það valda að velja, forgangsraða eða ákveða til hvaða þátta í þeim fjarskiptamálum sem um ræðir verið er að veita fjármagn á hverjum tíma en ekki þingið.