132. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2005.

Fjarskiptasjóður.

191. mál
[16:08]
Hlusta

Guðmundur Hallvarðsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Jón Bjarnason fór vítt og breitt um samgöngumál og verður að segja og ég held að hann sé sammála mér um að þetta er eitt af athyglisverðustu málum á sviði samgöngumála sem flutt hefur verið um nokkuð langan tíma í ljósi þess að lengi hefur verið deilt á að ekki sé nægjanlega gott GSM-kerfi meðfram þjóðvegi eitt. Hér er tillaga um að verulega verði bætt úr. Eins og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir kom inn á áðan hefur verið ótrúlega hröð uppbygging á GSM- eða NMT-kerfi sem aðeins er orðið ellefu ára gamalt. Svo hratt hefur þetta gengið yfir að ég held að það sé nú orðið nokkuð gott.

Hins vegar hjó ég eftir því að hv. þm. Jón Bjarnason talaði um að það væri eðlilegt og rétt að Alþingi sæi um þessi mál eða að Vegagerðin hefði með þetta að gera, sem náttúrlega hefur fyrst og fremst með öryggi á vegum að gera, en þetta er miklu víðfeðmara en það að hér sé aðeins um GSM-kerfi að ræða á þjóðvegi eitt. Það er auðvitað hugbúnaðurinn, hér eru tölvurnar og sá flutningur allur sem landsbyggðin bíður eftir og vill fá með miklu meiri hraða en er í dag og það er skiljanleg krafa.

En að fara síðan í hinn staðinn að tala um arðsemi þessara framkvæmda, hvernig það eigi að halda, dettur þá hv. þm. Jóni Bjarnasyni í hug að ef Alþingi hefði með þetta að gera þá yrði mjög mikið arðsemisálit hvernig ætti að framkvæma þetta verk? Eins og lagt er til þ.e. að þetta verði unnið af sérfræðingum á þessu sviði með það að leiðarljósi sem hæstv. samgönguráðherra hefur lagt upp með, að leita leiða til að þjóna landsbyggðinni sem best og mest má vera, hefði ég haldið að þingmenn hinnar dreifðu byggðar mundu bara segja amen eftir efninu. Við fögnum þessu og styðjum þetta af heilum hug.