132. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2005.

Fjarskiptasjóður.

191. mál
[16:11]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það voru ýmsir þingmenn sem fögnuðu markaðsvæðingu raforkukerfisins og stofnun millifyrirtækja eins og Landsnets fyrir ári en gerðust síðan miklir efasemdarmenn, meira að segja þingmenn úr Sjálfstæðisflokknum, um ágæti þeirrar markaðsvæðingar sem þar var á ferð, að hún væri nú það besta sem væri verið að gera fyrir hinar dreifðu byggðir. Enda líka fáum við fjölda dæmi þess að raforkuverð hefur snarhækkað t.d. í Súðavík. Þar talaði sveitarstjórinn um að raforkan til að reka rækjufyrirtæki, sem þeir síðan urðu að loka vegna stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum og hás gengis, hefði hækkað um 3 milljónir á árinu, bara sú stjórnsýslubreyting. Meira að segja þingmenn Sjálfstæðisflokksins fóru sumir að efast um að þetta hefði nú allt verið til góðs. Það er því ýmislegt að varast.

Arðurinn af Símanum meðan ríkið átti hann, 2–3 milljarðar á ári undanfarin ár, hefði verið góð upphæð til að verja til uppbyggingar fjarskiptakerfa og m.a. GSM-farsímaþjónustu. Nú koma þeir peningar ekki inn.

Hitt er síðan annað mál að ef af þessu verður verða menn að takast á við það sem fram undan er. Til dæmis framkvæmd vegáætlunar þar sem samgöngunefnd, þingmenn, þ.e. Alþingi, forgangsraðar. Við fáum reyndar tillögur frá Vegagerðinni og frá ráðherra að forgangsröðun í vegamálum, en það er þingið, það eru þingmennirnir sem bera síðan endanlega ábyrgð á þeirri forgangsröðun sem ráðist er í. Hér er ekki gert ráð fyrir slíkri ábyrgð. Hérna er verið að leggja til nýja tegund af ríkisstofnun. Sjálfstæðisflokkurinn er kannski svona hrifinn (Forseti hringir.) af því að fjölga ríkisstofnunum.