132. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2005.

Fjarskiptasjóður.

191. mál
[16:27]
Hlusta

Jónína Bjartmarz (F):

Frú forseti. Ég á það erindi fyrst og fremst í þennan ræðustól að fagna því frumvarpi sem hér er komið fram. Ef maður lítur aðeins til baka þá rifjast upp fyrir manni umræðan sem var hér á sínum tíma þegar frumvarp kom fram um sölu Landssíma Íslands og fyrirvarar sem ýmsir höfðu þá við það að grunnnetið yrði selt með. Þá tók þingflokkur Framsóknarflokksins þá afstöðu að þetta væri framfaraspor en hafði jafnframt þann fyrirvara við málið að þar sem ekki væri hægt að byggja upp fjarskiptakerfi í eitt skipti fyrir öll vegna tækniþróunar og framfara yrði einhvern veginn að tryggja að á hverjum tíma væri hægt að bregðast við því með tilliti til hagsmuna landsbyggðarinnar, svo að hún sæti ekki eftir þegar kæmi að því að byggja upp fjarskiptakerfi sem væri sjáanlega ekki jafnarðbært þar og í þéttbýliskjörnum landsins.

Hv. þm. Jón Bjarnason hefur, sem von er, flest á hornum sér og blandar inn í umræðuna breyttu skipulagi á raforkumálum og ýmsum öðrum ótengdum málum, en mér sýnist að með frumvarpinu sem hér er komið fram, og er sannfærð um það, séum við að tryggja það til lengri tíma litið að landsbyggðin sitji ekki eftir.

Á sínum tíma, þegar frumvarpið um að selja hlut ríkisins í Landssímanum kom fram, var áætlun í gangi hjá Landssímanum sem unnið var eftir um að ISDN-væða landið allt. Þá héldu menn að það væri það besta sem væri í boði til einhverrar framtíðar. ADSL-tenging fyrir einstaklinga þótti þá fráleit vegna þess kostnaðar sem fylgdi. Síðan fleygði tækninni fram og nú er gerð krafa um háhraðatengingu, jafnvel á fjarlægustu bóndabýlum. Von mín er sú að með þessum sjóði náum við því markmiði sem réttlátir og framsýnir þingmenn Framsóknarflokksins höfðu á sínum tíma, að tryggja það að hagsmunir landsbyggðarinnar yrðu ekki bornir fyrir borð.

En mér kemur það svolítið spánskt fyrir sjónir þegar hv. þm. Jón Bjarnason hefur á orði að það eigi að setja stjórn þessa fjarskiptasjóðs undir þingið. Ég skil eiginlega ekki hvernig hv. þingmaður ætlar sér þá framkvæmd og hvernig hún fellur á nokkurn hátt undir nútímastjórnsýslu. Það hlýtur að þurfa að ganga frá þessu máli þannig að það sé Alþingi á hverjum tíma sem samþykki stefnu í fjarskiptamálum fram í tímann. Það hlýtur að vera sú meginstefnumótun sem byggt er á og síðan hljóta fjárframlög á hverjum tíma að taka mið af henni.

Í ágætum athugasemdum, stuttum og gagnmerkum, við þetta lagafrumvarp er greint frá því hvernig uppbyggingunni er ætlað að vera. Þar er minnt á að samgönguráðherra hafi lagt fram á sínum tíma þingsályktunartillögu um stefnu í fjarskiptamálum fyrir árin 2005–2010. Hún var samþykkt 11. maí sl.

Síðan segir þar:

„Með samþykkt fjarskiptaáætlunar var lagður grunnur að stefnumótun stjórnvalda og aðkomu þeirra að uppbyggingu ýmissa þátta upplýsingasamfélagsins til næstu ára.“

Síðan segir jafnframt:

„Samhliða samþykkti Alþingi breytingar á fjarskiptalögum sem lögfesta gerð fjarskiptaáætlunar og endurskoðun hennar í ljósi þróunar og breyttra aðstæðna.“

Mér finnst miklu eðlilegra, frú forseti, að slík endurskoðun í ljósi þróunar og breyttra aðstæðna sé hjá fagfólki hvers konar og að sjóðstjórn, eins og frumvarpið gerir ráð fyrir, leiti þá eftir þekkingu og kunnáttu til slíkrar sjóðstjórnar, en ekki að þingið eða einhver sérstök þingnefnd sé að sýsla með þessi mál á hverjum tíma. Þó að mikil sérfræðiþekking liggi fyrir í þingnefndum þá efa ég að í nokkurri þingnefnd sé hún næg til þess að takast þetta verkefni á hendur.

En þarna er gert ráð fyrir sérstökum sjóði og honum er ætlað að skjóta stoðum undir ályktun Alþingis um stefnu í fjarskiptamálum. Síðan er gert ráð fyrir því að ríkissjóður leggi sjóðnum til stofnfé, allt að 2,5 milljörðum, og stjórn sjóðsins ákveði síðan greiðslu fjárins til einstakra verkefna í samræmi við fjarskiptaáætlun og ákvæði fjarskiptalaga.

Hv. þm. Jón Bjarnason, sem mér verður tíðrætt um í þessum ræðustól, enda sjaldan sem við erum sammála þegar talið berst að fjarskiptamálum, efaðist ekki um einlægan vilja ráðherra fjarskiptamála til að byggja upp fjarskipti á landinu öllu. Ég held að hann efist ekkert um einlægan vilja stjórnarmeirihlutans til að standa að því sama. Og, frú forseti, ég held að með því fyrirkomulagi sem þetta frumvarp gengur út á við stofnun þessa sjóðs sé endanlega sýnt fram á að samfara því að selja Landssímann var það einlægur vilji stjórnarflokkanna að tryggja hag landsbyggðarinnar og hinna dreifðu byggða þar sem uppbygging fjarskiptakerfisins er líklega ekki og augljóslega ekki jafnarðbær og uppbyggingin er hérna í þéttbýinu þar sem menn keppast um að veita þjónustu.