132. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2005.

Fjarskiptasjóður.

191. mál
[16:39]
Hlusta

Jónína Bjartmarz (F) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Jón Bjarnason taldi upp ekki einu sinni fjarlægar byggðir, taldi þó upp Vestfirðina þar sem hann taldi að hagur þeirra yrði fyrir borð borinn með sölu Landssímans. En þá liggur næst við að spyrja sem ég ætla þó ekki að gera en ég ætla að árétta það við hv. þingmann — ég ætla ekki að spyrja hann af því að hann geti ekki svarað — að til þess er fjarskiptasjóðurinn þar sem er sjáanlega ekki jafnarðbært að byggja upp fjarskipti og annars staðar á landinu. Það voru slíkir hagsmunir þessara byggða sem við framsóknarmenn og aðrir í ríkisstjórn höfðum í huga og vildum tryggja þegar við samþykktum sölu Landssímans, að tryggt væri að þessar byggðir sem hv. þm. Jón Bjarnason taldi upp, ekki bara Vestfirðirnir heldur aðrir nærtækari og nær þéttari byggðakjörnum, yrðu ekki fyrir borð bornar.

En gagnvart því að Framsóknarflokkurinn vilji einkavæða almannaþjónustuna leyfi ég mér líka að fullyrða, frú forseti, að skammt sé milli mín og Jóns Bjarnasonar þegar kemur að því að einkavæða almannaþjónustu, nánar tiltekið velferðarþjónustuna, því að einkavæðingu vil ég ekki sjá, hvorki í heilbrigðiskerfinu né menntakerfinu. En hins vegar er einkavæðing og einkarekstur, frú forseti, sitt hvað og Framsóknarflokkurinn hefur, þó hann vilji ekki einkavæða og muni aldrei ráðast í það, stutt það þegar kemur að heilbrigðis- og menntakerfinu að tiltekin verkefni séu boðin út og einstaklingar og fyrirtæki taki þau að sér á grundvelli þjónustusamninga. Það sem skiptir meginmáli er að skattborgararnir fái sem mest fyrir þær skatttekjur sem ríkissjóður fær frá þeim, að þetta sé rekið á sem hagkvæmastan hátt án þess að það komi niður á gæðunum og það á við um fjarskiptin alveg eins og velferðarþjónustuna.