132. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2005.

Fjarskiptasjóður.

191. mál
[16:55]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra fór aðeins meira inn á hvernig þessi nýi fjarskiptasjóður starfar og ég tek undir það að mjög mikilvægt er að það markmið náist að byggja upp öflugt fjarskiptakerfi um allt land eins og fjarskiptaáætlun segir til um.

Eitt atriði finnst mér þó standa út af og vil heyra álit ráðherrans á því. Segjum að upp komi upp ágreiningur um hvort það að byggja upp ákveðin fjarskipti á viðkomandi svæði sé það óarðbært að ríkið eigi að koma þar að eða ekki. Við skulum taka sem dæmi GSM-þjónustu í Vestur-Húnavatnssýslu. Sjóðurinn segir að þetta sé það arðbært að fjarskiptafyrirtækin geti gert þetta. Fjarskiptafyrirtækin segja að þetta sé ekki nægilega arðbært til að þau geri það. Er hægt að skikka fjarskiptafyrirtækin til þess að setja upp þjónustu við þær aðstæður sem þarna um ræðir? Sjóðurinn telur að arðsemin sé næg en fyrirtækið segist ekki hafa áhuga á að gera þetta núna strax. Fjarskiptaáætlun segir að þetta eigi að gerast og til að fjarskiptaáætlun nái fram að ganga þarf að vera hægt að beita boðvaldi annars vegar gagnvart þessum sjóð og hins vegar gagnvart fjarskiptafyrirtækjunum. Eru lagaheimildir fyrir hendi til þess að beita fjarskiptafyrirtækin því boðvaldi?