132. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2005.

Fjarskiptasjóður.

191. mál
[16:57]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sennilega þyrfti mjög mikið til að koma ef stjórnvöld gætu beitt boðvaldi. Af því að ég veit að hv. þingmaður þekkir vel til í landbúnaðinum, hvernig litist honum þá á sem gömlum bónda ef tilskipun kæmi frá landbúnaðarráðherranum um hversu mikið hann ætti að framleiða og hann ætti að framleiða það hvað sem það kostaði, hvort sem það væri arðbært eða óarðbært? Það liggur alveg fyrir að stjórnvöld geta ekki skikkað fjarskiptafyrirtækin til að byggja upp kerfi. Þess vegna tel ég engar líkur á því að gerð verði tilraun til þess. Ég held hins vegar að samkeppnin hjá fjarskiptafyrirtækjunum sé nægjanlega mikil til þess að ekki þurfi að beita þau neinum þrýstingi til þess að koma upp viðskiptatækifærum til þess að hagnast á þeim þar sem það er hægt. Ég held að hinn frjálsi markaður sem Adam Smith skrifaði svo ágætlega um á sínum tíma, og hv. þingmaður Vinstri grænna ætti að kynna sér alveg sérstaklega og rifja upp, muni sjá um þetta. Sóknin í viðskipti á sviði fjarskipta mun verða til staðar þar sem arðs er von.