132. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2005.

Stjórnmálaþátttaka, áhrif og völd kvenna.

29. mál
[17:18]
Hlusta

Brynja Magnúsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er alls ekki andsvar þar sem ég er fyllilega sammála þingsályktunartillögunni. Eins og komið hefur fram töldu 83,9% aðspurðra í einni Gallup-könnuninni stöðu karla vera betri en stöðu kvenna í íslensku samfélagi. Upplifun þessa fólks á samfélaginu eða mat þess hlýtur að koma einhvers staðar frá og má álíta sem svo að kvenfyrirmyndir skorti hvort heldur er í fjölmiðlum, atvinnulífi eða stjórnmálum. En í greinargerð með tillögunni segir, með leyfi forseta: ,„Tölulegar kyngreindar upplýsingar og staðreyndir sýna svart á hvítu hver staða kvenna er, þær sýna afturför á ákveðnum sviðum og vekja jafnframt ugg um hvert stefnir.“

Það er staðreynd að hlutur útskrifaðra kvenna í framhaldsskólum, sérskólum og háskólum er 63% og því virðist sem við stöndum okkur nokkuð vel á menntasviðinu. Eins er atvinnuþátttaka kvenna á Íslandi mjög mikil eða um 83% en þrátt fyrir það stöndum við illa að vígi hvað varðar áhrifa- og valdastöður í þjóðfélaginu. Ég tel því mikilvægt að fara yfir þessi mál með sérstöku tilliti til kvenfyrirmynda eða birtingarmynda kvenna til að grafast fyrir um undirliggjandi ástæður, hvort viðhorf í samfélaginu séu ástæða þess að ákveðið bakslag er komið í jafnréttisbaráttuna eða hvort einhverjar aðrar ástæður liggi að baki, og þess vegna er ég ánægð með þessa þingsályktunartillögu.