132. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2005.

Hlutur kvenna í sveitarstjórnum.

34. mál
[17:53]
Hlusta

Jónína Bjartmarz (F):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Siv Friðleifsdóttur, sem er 1. flutningsmaður að þessari þingsályktunartillögu, fyrir ágæta framsögu um málið. Ég er meðal margra meðflutningsmanna hv. þingmanns að málinu. Í tillögunni er m.a. lögð áhersla á að tryggt verði, með aðgerðum nefndar sem félagsmálaráðherra skipi, að ekki verði hliðstætt bakslag varðandi hlut kvenna í komandi sveitarstjórnarkosningum eins og varð í síðustu alþingiskosningum.

Það eru ekki margir dagar síðan kynnt var skýrsla nefndar, svokallaðrar tækifærisnefndar, sem hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra skipaði. Skýrsla þeirrar tækifærisnefndarinnar var kynnt á dögunum og í kjölfarið hafa verið haldnir fundir bæði á vegum Verslunarráðs og líka á vegum FKA, Félags kvenna í atvinnurekstri. Þar hefur orðið mikil umræða um kvóta, kvóta kvenna í stjórnum fyrirtækja. Skýrslan leggur það í raun ekki til en greinir vandann og ástæður þess hvað konur eru fáar í stjórnum fyrirtækja á Íslandi, ekki nema um 7% í þeim sem skráð eru í Kauphöllinni. Það er lægra hlutfall en er í stjórnum í öllum nágrannalöndunum okkar.

Við vitum að Norðmenn settu fyrir nokkru lög sem kváðu á um að að ákveðnum aðlögunartíma liðnum — ég man ekki hve mörg árin voru — yrði tekinn upp kvóti sem skyldaði öll fyrirtæki til að fylgja þessum lögum og tryggja 40% hlut kvenna.

Þessa 40% tölu höfum við heyrt í þessu samhengi áður og rætt um það. Til að mynda ákvað Framsóknarflokkurinn, flokkur minn og háttvirts 1. flutningsmanns málsins, Sivjar Friðleifsdóttur, á síðasta flokksþingi að binda í lög flokksins að hlutur kvenna, hvarvetna í trúnaðarstöðum á vegum flokksins og þar á meðal á framboðslistum, yrði aldrei undir 40%.

Af því að hér er talað um að hrinda af stað aðgerðum í því skyni að efla hlut kvenna í sveitarstjórnum, alveg eins og við konur í Framsóknarflokknum veltum fyrir okkur hvernig við ætlum að láta 40% regluna virka og tryggja jafnan hlut. Skoðun sumra okkar er sú að við getum aldrei gert það nema við séum að tala um 40% af virkum sætum. Ef flokkurinn á einhvers staðar þrjá sveitarstjórnarmenn þá gildir þetta aldrei og skilar engum árangri nema kveðið sé á um að þar séu fléttulistar, konur og karlar séu í öðru hvoru sæti. Um leið og menn koma sér saman um að tryggja, t.d. þar sem flokkurinn á tvo eða þrjá sveitarstjórnarmenn, að gæta skuli jafnræðis í sex efstu sætunum er hættan sú að konur raðist í 4., 5. og 6. sæti en karlarnir í fyrstu þrjú. Þá erum við ekki að tala um virk sæti.

Ég vildi nefna þetta við þessa umræðu. Tillagan gengur ekki út á að halda því á lofti að fléttulistar séu nauðsynlegir til að tryggja jafnan hlut og ná jöfnu hlutfalli á listunum. En umræðan varðandi niðurstöðu tækifærisnefndar hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra hjá fundi Félags kvenna í atvinnurekstri laut að því meira og minna, það kom fram hjá meiri hluta þeirra kvenna sem tóku til máls, að það gengi svo seint að fjölga konunum að binda ætti í lög 40% kvóta í stjórnum fyrirtækja eins og Norðmenn hafa gert. Það gætti mikillar óþolinmæði hjá konunum. Þetta hefur gerst svo hægt og síðustu daga höfum við séð bakslag. Hver og ein kona sem sest sem framkvæmdastjóri í stórfyrirtæki eða stjórnarformaður hefur mikið vægi. Nýlega hætti ein kona, ein af þeim konum sem við höfðum haldið á lofti sem ákveðinni fyrirmynd. Það er bakslag þótt það sé aðeins ein kona af því að þær eru svo fáar fyrir.

Á áðurnefndum fundi var ríkjandi stuðningur við að koma á 40% reglunni, að lögbinda hana og gefa ákveðinn aðlögunartíma, einhver ár þannig að fyrirtæki gætu brugðist við þessu. Hugsunin var ekki sú hjá konunum að skapa konum tækifæri heldur væri þetta þvert á móti tækifæri fyrir viðskipta- og efnahagslífið. Við kærum okkur ekki um að vera þröngvað inn í einhverjar stjórnir, sögðu sumar konurnar. En aðrar sögðu: Um leið og við erum komnar þar inn eyðum við fordómunum og sýnum fram á gagnsemi þess og nytsemi fyrir fjölbreytileikann að kynin séu þar bæði. Ýmis sjónarmið eru á lofti en ég velti fyrir mér hvort ganga hefði átt lengra í þingsályktunartillögunni sem hér er og fela Jafnréttisstofu það verkefni að leggja fram ákveðnar tillögur, t.d. um fléttulistana, sem virðist vera eina leiðin, samanber það sem ég sagði áðan um virk sæti til að tryggja fullt jafnræði. Þetta er eitthvað sem við á vettvangi Framsóknarflokksins þurfum að taka á. Við þurfum að átta okkur á því hvernig við ætlum að útfæra það þannig að 40% ákvæðið sé ekki bara bókstafur heldur eitthvað sem leiði okkur til þessa markmiðs sem ætlunin er að ná.

Jafnréttisstofa hefur í hendi sér að leggja eitthvað slíkt til. Ég minni t.d. á að í nágrannalöndum okkar, nánustu frændþjóðum svo sem í Noregi, er ekki nokkur stjórnmálaflokkur sem býður upp á annað en fléttulista. Fremskrittspartiet, eins og hann heitir, er eini flokkurinn í Noregi sem býður kjósendum ekki upp á það. Allir aðrir flokkar gera það. Það hefur leitt til þess að meira jafnræði er á norska þinginu og meira jafnræði hvað varðar ráðherrastóla heldur en t.d. hjá okkur. Sömu söguna er að segja um Svíþjóð.

Frú forseti. Ég vildi hnykkja á þessu í samhengi við framsögu hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur. Það þarf að vera ljóst hvert við stefnum. Ég velti því fyrir mér, þegar Jafnréttisstofa skilar síðan vinnu sinni, hvort mögulegt sé að hún leggi eitthvað slíkt til þannig að þetta séu ekki bara orðin tóm heldur sé markmiðið að tryggja jafnan hlut karla og kvenna.