132. löggjafarþing — 14. fundur,  3. nóv. 2005.

Starfsmannaleigur.

[10:43]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Í tvö ár hefur hæstv. félagsmálaráðherra verið að væflast með þetta mál án aðgerða. Fyrir rúmu ári var skipuð nefnd sem átti að semja frumvarp um aðkomu starfsmannaleigna að íslenskum vinnumarkaði. Ekkert hefur gerst en eins og nú boðuð frumvörp í framtíðinni. Þetta er sáraeinfalt mál. Í reynd hefur legið fyrir á Alþingi og beðið afgreiðslu frumvarp sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð lagði fram á síðasta þingi að frumkvæði hv. varaþingmanns VG, Atla Gíslasonar, um þetta málefni og hefur það nú verið endurflutt. Í því frumvarpi er tekið á kjarna vandamálsins sem er sá að verið er að flytja inn farandlaunafólk á kjörum sem eru undir íslenskum kjarasamningum. Að gera það er skýlaust brot á lögum um starfskjör launafólks.

Í frumvarpi VG eru tekin af öll tvímæli um réttarstöðu erlendra launamanna sem koma til starfa hér á landi. Kveðið er á um aðgengi trúnaðarmanna stéttarfélagsins að ráðningarsamningum og launakjörum og kveðið á um heimildir til sekta og miskabóta. Þetta er allt saman í þessu frumvarpi. Það þarf engar nefndir. Einvörðungu með því að samþykkja frumvarp frá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði sem legið hefur fyrir þá er búið að setja lög um starfsmannaleigur. Og hvernig stendur á því að á sama tíma og ríkisstjórnin vill koma upp íslenskum her og er óspör á fjármuni til slíkra verkefna er horft upp á lögbrot á Keflavíkurflugvelli? Eða hvað skyldi hópur 30 Pólverja vera að vilja hingað til lands í þrjá mánuði sem ferðamenn, fara síðan í helgarfrí til Kaupmannahafnar og koma svo aftur sem ferðamenn til Íslands? Hér eru að sjálfsögðu á ferðinni launamenn án atvinnuleyfa, leiksoppar óprúttinna mannabraskara. Hér kalla ég einnig fjölmiðla til ábyrgðar. Þegar Vinnumálastofnun á fullkomlega (Forseti hringir.) löglegan og eðlilegan hátt reynir að upplýsa um svínaríið er henni legið á hálsi fyrir það.