132. löggjafarþing — 14. fundur,  3. nóv. 2005.

Starfsmannaleigur.

[10:48]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Aðförin sem nú er gerð á grundvelli umsaminna launa fólks á vinnumarkaði er ekki nýtilkomin. Lengi hafa verið starfandi á kaupskipum í eigu Íslendinga erlendir menn á lægri kjörum en samningar sjómanna hér á landi kváðu á um sem lágmarkslaun fyrir þau störf á farskipunum. Það vantaði sem sagt ekki íslenska farmenn. Það voru lágu launin sem menn voru að sækja í.

Sú þróun hefur nú leitt til þess að öll farskip í eigu Íslendinga sem eru í millilandasiglingum eru undir erlendum fána og störfin mönnuð að miklu leyti með erlendum mönnum sem þess vegna geta verið ráðnir hjá starfsmannaleigum.

Nú er sá veruleiki sjómanna til margra ára að verða með sama móti við margs konar störf á almennum vinnumarkaði. Það var því af nauðsyn sem ASÍ hóf baráttuna „einn réttur, ekkert svindl“ gegn atvinnurekendum sem misnotuðu erlent verkafólk á þann hátt sem verið hefur á undanförnum missirum.

Það virðist ljóst að atvinnurekendur muni sækja í það að ná til sín vinnuafli sem þeir geta greitt lægri laun. Ef svo væri ekki væri þetta vandamál ekki til staðar. Menn nota starfsmannaleigur til að ná í erlent vinnuafl og greiða lægri laun en um var samið og ganga fram hjá þeim rétti sem launamenn á Íslandi eiga að hafa. Ráðning á fólki með aðstoð starfsmannaleiga er aðferð til að lækka laun og ganga á snið við önnur réttindi. Þá þróun verður að stöðva og það strax.