132. löggjafarþing — 14. fundur,  3. nóv. 2005.

Starfsmannaleigur.

[10:51]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir að taka málefni starfsmannaleiga upp á Alþingi og þakka jafnframt hæstv. félagsmálaráðherra svörin. Hér er nefnilega um gríðarlega alvarlegt mál að ræða. Mannréttindi og kjarasamningar erlends vinnuafls hafa í einhverjum tilvikum verið þverbrotnir og slíkt er óásættanlegt. Okkur Íslendingum hefur gengið vel að byggja upp sveigjanlegan vinnumarkað á undanförnum árum og íslensk verkalýðshreyfing hefur staðið vörð um réttindi launafólks og kaupmáttaraukning hefur verið gríðarleg í þjóðfélaginu á undanförnum árum.

Nú bregður hins vegar svo við að þjóðarsátt á vinnumarkaði er ógnað með starfsemi svokallaðra starfsmannaleiga. Undirboð launa á íslenskum vinnumarkaði í þessu samhengi er staðreynd, sem mun aftur á móti leiða til þess að kaupmáttur launafólks og heimilanna í landinu mun minnka. Þá er eðlilegt að spurt sé hér á Alþingi hvort við stjórnmálamenn getum gripið inn í þá þróun, og svarið er já. Ég fagna yfirlýsingu hæstv. félagsmálaráðherra þess efnis að frumvarp til laga um starfsmannaleigur muni líta dagsins ljós von bráðar þar sem slíkri starfsemi verða takmörk sett.

Hæstv. forseti. Það hefur verið lenska í umræðunni, m.a. hjá hv. málshefjanda, að skella skuldinni alfarið á vinnumálayfirvöld þegar kemur að starfsemi starfsmannaleigna í landinu. Skattyfirvöld og lögregla bera einnig ábyrgð og ljóst að frumkvæði þeirra aðila í þessum málum hefur verið af skornum skammti. Hér er um samstarfsverkefni þessara aðila að ræða og við hljótum að gera þá kröfu að þær stofnanir vinni saman að úrlausn þessara mála og noti þær heimildir sem fyrir hendi eru til að koma í veg fyrir ólögleg (Forseti hringir.) undirboð á íslenskum vinnumarkaði.