132. löggjafarþing — 14. fundur,  3. nóv. 2005.

Starfsmannaleigur.

[10:58]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Það mátti ráða af máli hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar að viðhorf flokks hans er í reynd það að gott sé að nota starfsmannaleigurnar eins og þær eru núna til að sporna gegn þenslu. Það er nefnilega Sjálfstæðisflokkurinn sem dregur lappirnar í þessu máli og það er aflið sem hæstv. ráðherra þarf að berjast við.

Mig langar að upplýsa hv. þingmann um að mér hefur verið sýndur sá trúnaður af þessu þingi að sitja í Evrópuráðinu. Þar hefur mér verið falið að gera skýrslu um starfsmannaleigurnar sem ég er að vinna að um þessar mundir. Ég get upplýst þingið og hv. þingmann um að mér er enn þá ekki kunnugt um neitt land í Evrópu þar sem ástandið varðandi starfsmannaleigur er jafnslæmt og hér á Íslandi. Hvergi er ríkjandi sama sjóræningjaástand og hérna. Mjög víða eru lög um starfsmannaleigur. Lög um starfsmannaleigur í Póllandi eru t.d. miklu fullkomnari en víða annars staðar og að sjálfsögðu fullkomnari en hér.

En ég fagna því sem vel er gert. Þó að hæstv. ráðherra hafi áður talað fagurlega um nauðsyn þess að setja lög um starfsmannaleigur kom hann þó hingað og sagði að fyrir jól mundi hann leggja fram frumvarp. Ég tek það loforð gilt af hálfu góðs framsóknarmanns. Hann sagði líka að í þeim lögum yrðu sérákvæði sem varða sérstaklega starfsemina hér á landi.

Ég vil svo taka hjartanlega undir með hv. þm. Birki Jóni Jónssyni sem gagnrýndi harkalega að hæstv. dómsmálaráðherra og hæstv. fjármálaráðherra hafa lekið niður og standa sig ekki í stykkinu við að halda uppi öflugu eftirliti með lögum og skattheimtu. Þetta er nákvæmlega það sem við höfum verið að gagnrýna. En því miður er staðan þannig að hæstv. félagsmálaráðherra var varaður við fyrir tveimur árum þegar Impregilo byrjaði með sína vondu iðju við Kárahnjúka. Hann trúði ekki þá að þetta mundi gerast en nú hefur hæstv. ráðherra lagt höndina í sárið eins og Tómas forðum og hann trúir. Ég fagna því að hann ætlar að bregðast við með frumvarpi.