132. löggjafarþing — 14. fundur,  3. nóv. 2005.

Upplýsingaréttur um umhverfismál.

221. mál
[11:10]
Hlusta

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Í febrúar á þessu ári skipaði ég nefnd til að fara yfir efni samningsins. Verkefni hennar er að fara yfir ákvæði Árósasamningsins um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum. Hlutverk nefndarinnar er að greina efni samningsins, m.a. með hliðsjón af þeim tilskipunum Evrópusambandsins sem samþykktar hafa verið á grundvelli hans og mun væntanlega verða hluti af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og að greina hvaða opinberar leyfisveitingar falla undir hann. Þá skal nefndin fara yfir hvaða breytingar á lögum þarf að gera vegna framangreindra tilskipana og enn fremur hvaða breytingar þurfi að gera á lögum þegar og ef Ísland fullgildir samninginn. Þessi nefnd er að störfum þannig að það er alveg ljóst að þessi mál eru til skoðunar.