132. löggjafarþing — 14. fundur,  3. nóv. 2005.

Upplýsingaréttur um umhverfismál.

221. mál
[11:13]
Hlusta

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er ekki einfalt mál. Þegar það var skoðað á sínum tíma gerði réttarfarsnefnd athugasemdir við ýmsar breytingar sem þyrfti að gera á lögunum, það var ástæðan fyrir því að málið gekk ekki fram á þeim tíma.

Það er líka vert að veita því athygli að löggjöf í hinum ýmsu löndum sem þetta mál snertir er mjög mismunandi og sem dæmi um það er t.d. að Svíar þurfa að gera grundvallarbreytingar á lögum hjá sér. (Gripið fram í: Þeir eru búnir að því.) Það hefur ekki verið mjög auðvelt fyrir þá því að þeir þurftu að fara í stjórnarskrána. Ég hélt reyndar að því yrði ekki að fullu lokið fyrr en á næsta ári.