132. löggjafarþing — 14. fundur,  3. nóv. 2005.

Upplýsingaréttur um umhverfismál.

221. mál
[11:22]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Hér er öðru sinni komið fram frumvarp til laga um upplýsingarétt um umhverfismál. Það kom fyrst fram seint í fyrra, of seint til að ná í 1. umræðu. Málið fór þar með ekki til nefndar og hefur hvorki fengið skoðun þar né umsagnir borist þinginu utan frá, frá kunnáttumönnum, samtökum og stofnunum.

Hæstv. ráðherra hefur reifað málið og farið yfir kosti þess, sem einnig er gerð ágæt grein fyrir í greinargerðinni, í stuttu máli í IV. kafla greinargerðarinnar, að ég hygg. Ætli það merkasta af réttarbótum þar sé ekki það að í frumvarpinu er víðari skilgreining á hugtakinu stjórnvöld en hefðbundin er. Hún tekur sérstaklega til fyrirtækja sem rækja opinbert hlutverk. Rétturinn til upplýsinga er ekki aðeins réttur til upplýsinga sem eru beinlínis í vörslu stjórnvalda heldur líka til upplýsinga sem aðrir geyma fyrir þeirra hönd. Eftir því sem séð verður við skjóta yfirsýn virðist þetta vera gert þannig að það sé skothelt og uppfylli þær kröfur sem gera verður til þess arna. Rétt er að menn fái það hrós sem hver og einn á skilið en hér stendur Evrópusambandið á bak við og tilskipun 2003/4/EB sem frumvarpið byggist á.

Vegna orða síðasta ræðumanns, hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur, um 1. gr. frumvarpsins er rétt að beina þeirri spurningu til ráðherra hvort eitthvað búi á bak við það orðalag, um markmið laganna. Frumvarpið er um upplýsingarétt um umhverfismál og þess vegna vekur spurningar hve sterklega þetta er orðað um markmiðið. Það er ekki bara að tryggja eigi almenningi aðgang að þessum upplýsingum heldur á markmiðið að vera að stuðla að sterkari vitund um málefni á umhverfissviði, frjálsum skoðanaskiptum og aukinni þátttöku almennings við töku ákvarðana um umhverfismál. Það vekur auðvitað athygli að markmiðið skuli vera svo víðfeðmt. Hér er einungis um að ræða þriðjung af þeim efnisatriðum sem tiltekin eru í Árósasamningnum, sem stendur að baki þessu öllu. En með markmiðunum er í raun gert ráð fyrir tveimur þriðju af efnisatriðum hans eða svo. Ég kem að því síðar en ég vona að þetta orðalag sé ekki notað til þess að reyna með einhverjum hætti að ná yfir þann þriðjung sem hér er bætt við, um aukna þátttöku almennings í töku ákvarðana um umhverfismál. Þetta frumvarp eykur ekki þá þátttöku með nokkrum hætti, nema að því leyti að auknar upplýsingar auka þátttöku.

Í 1. umræðu er ekki annað að gera en að fagna þeim réttarbótum sem felast í þessu frumvarpi og berast okkur frá Evrópu, eins og flestar réttarbætur þessi árin, frá Evrópusambandinu góða sem ég veit að við öll, sem stödd erum í salnum, erum hrifin af. En íslensk stjórnvöld hefðu ekki ein sér, þrátt fyrir góðan vilja, vænti ég, komið með slíkar réttarbætur.

Rétt er að minnast þess að í greinargerðinni kemur fram að tilskipun Evrópusambandsins hefði átt að innleiða í febrúar en varð það ekki. Við erum þegar orðin of sein að taka hana inn samkvæmt ströngustu reglum. Vonandi tekst nefndinni að fara skjótt yfir frumvarpið. Það er nokkuð tæknilegt og þarf rækilega athugun en þar er hægt að styðjast við umsagnir.

Eitt vekur strax athygli í frumvarpinu, sem er tiltekið rækilega og ágætlega skýrt í kafla IV, sem ég minntist á áðan, í greinargerðinni. Það er að sé miðað við upplýsingalög þá er bein undanþága sem ekki er að finna berum orðum í upplýsingalögum. Þessi undanþága varðar sértæka þagnarskyldu sem lög kveða á um. Málum er þannig háttað að samkvæmt 4. gr. skapar almenn þagnarskylda í lögum ekki undanþágu frá rétti almennings til upplýsinga. Það ákvæði í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins að þeir séu almennt bundnir þagnarskyldu við störf sín getur ekki hindrað almenning í að sækja sér upplýsingar en í 6. gr. er hins vegar ákvæði um að sérstök þagnarskylda í lögum skapi undanþágur frá væntanlegum lögum um upplýsingarétt um umhverfismál. Höfundar greinargerðarinnar gera okkur þann greiða að telja beinlínis upp hvaða sérstöku ákvæði það eru þannig að ekki leiki neinn vafi á því.

Í fylgiskjali I eru hin sérstöku tilvik rakin. Þar er margt sem er fullkomlega sjálfsagt að skapi slíka undanþágu, svo sem ákvæði um leynd við störf barnaverndarnefnda eða ákvæði um leynd yfir tilteknum upplýsingum í Seðlabanka Íslands, leynd sem tengist skattrannsóknum, einkunnum í grunnskóla og fleira slíku sem sjálfsagt er. En þarna eru einnig verndarákvæði á sviðum sem vel gætu orðið umdeild þegar almenningur sækir rétt sinn til upplýsinga um umhverfismál, svo sem atriði sem varða svokallaða framleiðslu- og verslunarleynd í lögum um matvæli, lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, lögum um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða. Vel er líklegt að þar verði til upplýsingar sem almenningur þarf að geta sótt sér vegna umhverfismála, fremur en það sem gerist í störfum barnaverndarnefnda eða einkunnir í grunnskóla. Það þarf að gæta þess að með ákvæði af þessu tagi verði upplýsingum um umhverfisþætti framleiðslu í sjávarútvegi og öðrum matvælaiðnaði, og í lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, ekki blandað saman við viðskiptaleyndarmál, þ.e. menn geti ekki skotið sér á bak við viðskiptaleyndarmál þegar veita skal upplýsingar um umhverfismál. Þetta er eitt af því sem liggur fyrir nefndinni að fara vel í gegnum þannig að ekki verði neinar glufur sem menn kynnu að reyna að nota til að fela sig. Þetta þarf að skoða mjög nákvæmlega.

Ég sagði áðan, forseti, að hér væri á ferðinni einn lögþáttur sprottinn af Árósasamningnum sem svo er kallaður, sem fjallar um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum. Málið snýst um þetta þrennt: upplýsingar, þátttöku í ákvarðanatöku og réttláta málsmeðferð, þ.e. það sem snýr að dómstólunum. Um þennan samning má auðvitað lesa í greinargerð með frumvarpinu og víða annars staðar. Af þessu sést hvers vegna ég spurði um hvers vegna væri í 1. gr. frumvarpsins bæði talað um rétt til upplýsinga og aukna þátttöku almennings, hvort hér væri gert ráð fyrir að aldrei yrðu festar í lög á Íslandi tilskipanir um aukna þátttöku almennings en hins vegar verði Evrópusambandinu og ESA-dómstólnum sýnt þetta frumvarp, þegar það verður orðið að lögum, til að sanna að við höfum þó sýnt lit í því að auka þátttöku almennings. Ef svo er þá held ég að við ættum að taka það atriði út því að þetta mál snýst eingöngu um upplýsingar og á eingöngu að vera um upplýsingar.

Árósasamninginn skrifuðu Íslendingar undir strax árið 1998 ásamt miklum meiri hluta Evrópuþjóða. Hins vegar bregður svo við, sjö árum síðar, að við höfum ekki enn staðfest samninginn eða fullgilt hann þótt við séum nú að lögleiða part úr honum. Sú lögleiðing stafar sem sé ekki af undirskrift okkar undir samninginn heldur erum við nánast tilneydd til þess vegna samstarfsins í EES. Núna, sjö árum síðar, eru Íslendingar, samkvæmt upplýsingum sem ég fékk á vefsetri samningsins í gær, ein af aðeins átta Evrópuþjóðum sem ekki hafa staðfest samninginn, ein af átta. 38 ríki hafa staðfest samninginn, bæði ríki sem skrifuðu undir 1998 og ríki sem síðar hafa gerst aðilar að honum. Sum þeirra hafa kannski verið á mörkum þess að vera til árið 1998. Allar norrænu þjóðirnar hafa staðfest eða fullgilt samninginn, Norðmenn, Danir og Finnar strax 1998, Svíar í maí í vor, vegna þeirrar flækju sem þar blasti við en þeir gengu í að leysa. Ég hef ekki upplýsingar um hvort þeir hafa breytt stjórnarskránni eða réttara sagt stjórnskipunarlögunum því að með slík grundvallarlög háttar öðruvísi í Svíþjóð en hér. En þeir eru a.m.k. reiðubúnir til þess, svo reiðubúnir að þeir hafa þegar fullgilt samninginn.

Það er alkunna hér á þingi en þó rétt að rifja það upp að hæstvirtur þáverandi utanríkisráðherra, Halldór Ásgrímsson, flutti frumvarp til fullgildingar á samningnum á þinginu árið 2002. Hann mælti fyrir því 23. apríl það ár. Áður hafði hæstvirtur umhverfisráðherra sem þá sat, nú hv. þm. Siv Friðleifsdóttir, heitið þeirri staðfestingu eða fullgildingu í samningi við félagasamtök í mars 2002. Málið sofnaði á því þingi en síðan hefur verið margspurt um það. Ötulastur þingmanna í þeim fyrirspurnum hefur einmitt verið sú sem hér talaði áðan, hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir og hafi hún þökk fyrir það atfylgi. Svarið hefur alltaf verið að þetta sé ægilega flókið og erfitt, að réttarfarsnefndin hafi gert við þetta athugasemdir og nánast þurfi að umsteypa öllum lagabálkum á Íslandi. Ekkert gerist í málinu frá apríl 2002 til nóvember 2003 en þá er utanríkisráðherra enn einu sinni spurður um þetta mál. Hann upplýsti þá, með leyfi forseta, að „nýlega“ hefði verið ákveðið, í nóvember 2003, að skipa starfshóp undir forustu umhverfisráðuneytisins. Hann sagði, með leyfi forseta:

„Nýlega var ákveðið að skipa formlegan starfshóp undir forustu umhverfisráðuneytis til að gera nákvæma úttekt á þeim lagabreytingum sem fullgilding Árósasamningsins hefði í för með sér. Umræddar lagabreytingar varða málefni ýmissa ráðuneyta og er gert ráð fyrir að fulltrúar dóms- og kirkjumálaráðuneytis, iðnaðarráðuneytis, landbúnaðarráðuneytis, sjávarútvegsráðuneytis og utanríkisráðuneytis auk umhverfisráðuneytis eigi sæti í þeim starfshóp.“

Þetta segir utanríkisráðherra 5. nóvember árið 2003. Mér skilst hins vegar — hæstv. umhverfisráðherra leiðréttir það ef rangt reynist — að þessi starfshópur hafi ekki verið skipaður fyrr en í janúar á þessu ári, í janúar 2005. Þannig virðist hafa liðið heilt ár og rúmur mánuður frá yfirlýsingunni um að nýlega hafi verið ákveðið að skipa starfshóp þar til hann var skipaður.

Ég vona að hæstv. umhverfisráðherra geti sagt okkur frá árangri starfshópsins því að mér skilst líka að það sé rétt á mörkunum að þessi starfshópur hafi nokkurn tíma komið saman vegna þess að nefndarmenn, sem eru náttúrlega sex ákaflega mikilvægir og merkilegir embættismenn úr öllum þessum ráðuneytum, séu svo mikið í útlöndum að þeir geti ekki sótt fundi í starfshópnum. Er það svo, forseti? Hefur starfshópurinn komið saman? Hvað líður hans verkum? Er ekki rétt að hæstv. umhverfisráðherra segi okkur frá því eftir alla þessa sögu?

Það sem skín af þessari litlu sögu um íslensk stjórnvöld og Árósasamninginn er það að Árósasamningurinn, innihald hans, er ekki í forgangi hjá íslenskum stjórnvöldum. Það er enginn áhugi á því hjá íslenskum stjórnvöldum, í þessum sex ráðuneytum, að koma Árósasamningnum til verka. En nú er svipan á eftir hæstv. umhverfisráðherra með að koma í gegn þessum hluta af samningnum sem þegar er orðinn rúmu hálfu ári á eftir þeim tíma sem gert var ráð fyrir að hann yrði fullgiltur. En í aðra hluta Árósasamningsins sést ekki neitt nema í hinum góða starfshópi sex embættismanna úr jafnmörgum ráðuneytum.

Hvað ættum að fá út úr Árósasamningnum? Hverjir eru hinir partarnir? Jú, einn varðar aðgengi almennings að dómskerfinu til að fá skorið úr málum sem snerta það þegar menn taka ákvarðanir um umhverfismál. Það hefur verið umdeilt hér á landi og löng saga að segja frá því, sem ég endist ekki til hér. En við þekkjum þær deilur, bæði úr þingmálum og annar staðar að. Og þriðji hlutinn fjallar um aðgengi almennings að ákvarðanatöku um umhverfismál. Hér er auðvitað talað um almenning en þar með teljast samtök almennings, þ.e. frjálsu félagasamtökin í landinu. Það verður þó að segjast umhverfisráðuneytinu og umhverfisráðherrum sem hér hafa setið til hróss — ég vil gera það á skjön við það sem síðasti ræðumaður sagði — að þar ríkir ákveðin samstarfshefð í þeim efnum. Ráðuneytið hefur frá upphafi haft ákveðið samstarf við frjáls félagasamtök og talið það skyldu sína. Ég tel að það sé gott og ráðuneytið hafi í raun staðið sig betur en flest önnur ráðuneyti, eldri systur þess og bræður. Þannig hefur það gengið fram að þessu og vonandi að svo verði enn. Þrátt fyrir ýmis tíðindi sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir rakti, sem eðlilegt var, hefur þessi samstarfshefð verið fyrir hendi.

Maður spyr sig hins vegar að því hvort ástæðan fyrir því að þessi seinkun hefur orðið sé sú að hæstv. ráðherra Halldór Ásgrímsson og núverandi hv. þm. Siv Friðleifsdóttir, en þau og Framsóknarflokkurinn lofuðu þessu á sínum tíma, mætt fyrirstöðu. Að manni læðist sá grunur að Sjálfstæðisflokkurinn hafi einhverja þá hugmyndafræði sem stendur gegn því að almenningur öðlist þennan rétt, að Sjálfstæðisflokkurinn telji að lýðræðið sé þannig að forminu til að það eigi að kjósa fólk með einhverjum ráðum og síðan eigi það fólk að ráða í fjögur ár sem til þess hefur umboð en þar eigi ekki aðrir að koma að. Maður spyr sig hvort það er þess vegna sem Árósasamningurinn hefur ekki verið fullgiltur og staðfestur og þess vegna hafi menn ekki komið honum inn í lög hér á landi, fyrr en þeir eru barðir áfram með svipunni frá Evrópu.

Mér sýnist, þegar maður fylgist með hugmyndafræðilegri umræðu sem er kannski fremur af skornum skammti í Sjálfstæðisflokknum, að þessi grunur eigi nokkurn rétt á sér. Þegar ég segi af skornum skammti þá á ég við að þeir séu kannski ekki margir sem taka til máls um hugmyndafræði í Sjálfstæðisflokknum. Einn gerir það þó og á mikið hrós skilið fyrir það. Það er hæstv. dómsmálaráðherra Björn Bjarnason. Hann skrifaði á heimasíðu sína fyrir nokkrum vikum, í framhaldi af fundi Mont Pelerin-samtakanna á Íslandi, sem var mikil hátíð hjá hægri mönnum og gaman að þeir skulu skemmta sér öðru hvoru. Hann tekur upp eftir einhverjum frægasta og harðsvíraðasta frjálshyggjumanni sem nú er við völd í Evrópu, Tékklandsforsetanum Vaclav Klaus, mikinn passus í ræðu hans á fundinum. Björn telur ásamt Klaus að verið sé að búa til einhvers konar nýjan sósíalisma. Þar er m.a. — ég hef ekki tíma til að lesa þetta allt — gagnrýndur svokallaður „umhverfisismi“, sem er orð eftir Björn Bjarnason og Vaclav Klaus, og „róttækur mannréttindaismi“ og síðan er gagnrýnd hugmyndafræðin um samfélagslegt þjóðfélag sem ekki sé annað en póstmarxísk útgáfa af þjóðfélagsgerð þar sem skipulagðir hópar skuli njóta sérréttinda sem leiði til nýs lénsskipulags. Þetta nefni ég sem dæmi um hæðirnar í hugmyndafræði Björns Bjarnasonar. Hann nefnir líka „fjölmenningarisma“ og „femínisma“ og „andpólitískan teknókratisma“ og „alþjóðaisma“, sérstaklega hinn evrópska þátt sem kallast „evrópuismi“ og það hraðvaxandi fyrirbæri sem Vaclav Klaus kallar „NGO-isma“, en NGO er enska skammstöfunin fyrir frjáls félagasamtök.

Það er rétt að hæstv. umhverfisráðherra svari því nú, af því að hún hlýtur að vera með í hugmyndaumræðunni innan Sjálfstæðisflokksins, hvort hún taki undir hugmyndir Vaclavs Klaus annars vegar og hins vegar Björns Bjarnasonar um að það beri að berjast gegn þessum „NGO-isma“ sem sé ekki annað en einhvers konar póstmarxismi og nútímaútgáfa af kommúnisma. Einmitt það að tortryggja Árósasamninginn með þessum hætti, sem virðist samevrópsk hægri stefna, bendir til að þeir sem fyrir því standa séu andstæðingar hins svokallaða NGO-isma. Um þetta vil ég gjarnan heyra frá hæstv. umhverfisráðherra, að hún segi okkur það hvort hún sé þessarar skoðunar, hvort hún sé í þeim armi Sjálfstæðisflokksins sem berst gegn öllum þessum „ismum“ eða hvort hún hefur aðra skoðun á því efni.