132. löggjafarþing — 14. fundur,  3. nóv. 2005.

Upplýsingaréttur um umhverfismál.

221. mál
[11:53]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg rétt hjá hæstv. ráðherra. Félagasamtökin velja sjálf þau verkefni sem þau sækja um. En það er ekki á þeirra valdi hvaða verkefni fá náð fyrir augum fjárveitingavaldsins, þ.e. umhverfisráðherra í þessu tilfelli, og hvaða verkefnum er hafnað. Ef um deilumál er að ræða, pólitískt hitamál, leiðir það af sjálfu sér að umhverfisráðherra fer ekki að styrkja frjáls félagasamtök sérstaklega til að berjast. Það er bara þannig. Þess vegna eiga stjórnvöld að vera það þroskuð að þau eiga að útdeila þeim fjármunum sem eru til ráðstöfunar í þessum efnum, ótilgreint, þannig að frjálsu félagasamtökin ákveði sjálf á hvern hátt þau síðan berjast fyrir hagsmunamálum sínum og þau þurfa oft, eðli málsins samkvæmt, að taka snerrur við stjórnvöld. Stjórnvöld eiga ekki að kveinka sér undan þeim, þau eiga bara að taka því sem að höndum ber í þeim efnum.

Það er afskaplega athyglisvert og gaman að fá áðurnefnda tilvitnun frá hv. þm. Merði Árnasyni í heimasíðu hæstv. ráðherra Björns Bjarnasonar, um NGO-ismann. Ég held að gríðarlega mikið sannleikskorn sé í því sem hv. þingmaður bendir okkur á með þeirri tilvitnun. Sannleikurinn er nefnilega sá að ríkisstjórn hæstv. forsætisráðherra, Halldórs Ásgrímssonar, er ekkert um afskiptasemi frjálsra félagasamtaka gefið. Það hefur verið þannig núna undanfarin ár að hatrömm barátta hefur verið í gangi. Stjórnvöld hafa kveinkað sér verulega og þau gera það enn og ég sé ekki að það séu neinar sættir í sjálfu sér í sjónmáli, þó svo stjórnvöld geti auðvitað unnið í sakleysislegum og (Forseti hringir.) þörfum málum með frjálsu félagasamtökunum, sem er vel.