132. löggjafarþing — 14. fundur,  3. nóv. 2005.

Upplýsingaréttur um umhverfismál.

221. mál
[12:01]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég átti ónotaðan réttinn til að flytja aðra ræðu. Ég skal hafa hana ákaflega stutta. Hún gengur einfaldlega út á það að orðaskiptin í andsvörum áðan segja þingheimi og landslýð að umhverfisráðherra var ekki tilbúin til að fallast á að svara spurningu minni um hvort hún væri pólitískt sammála Árósasamningnum. Þá er uppi á borðinu að samningur sem við höfum undirritað en ekki fullgilt er í því lausa lofti að sjálfur hæstv. umhverfisráðherra ríkisstjórnarinnar er ekki tilbúinn að taka undir meginatriði samningsins.

Næsta spurning er í raun um hvort Íslendingar eigi að draga undirritun sína til baka af þessum samningi. Íslensk stjórnvöld eru ekki tilbúin til að stíga næsta skref. Eftir undirritun samningsins árið 1998 sat þó sama ríkisstjórn, að flokkum til a.m.k., en annar umhverfisráðherra og annar utanríkisráðherra. En þeir sem fóru með þetta vald voru þá frá Framsóknarflokknum.

Margt hefur vont verið sagt um Framsóknarflokkinn undanfarin missiri en kannski er hann að þessu leyti skárri en hinn stjórnarflokkurinn, sem nú heldur um bæði þessi ráðuneyti, utanríkisráðuneytið og umhverfisráðuneytið, að hann var pólitískt sammála Árósasamningnum. En Sjálfstæðisflokkurinn virðist ekki vera það. Mér þykja þetta nokkur tíðindi og satt að segja átti ég síður von á þeim. Ég hélt að hæstv. umhverfisráðherra væri maður til þess að standa í lappirnar í málaflokki sínum og a.m.k. til að standa almennt og pólitískt við þær skuldbindingar sem felast í undirritun ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar undir Árósasamninginn 1998. Svo virðist þó ekki vera og ég harma það.