132. löggjafarþing — 14. fundur,  3. nóv. 2005.

Aðbúnaður hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum.

236. mál
[12:21]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir innlegg hennar í þessa umræðu og mun gera mitt ýtrasta til að svara þeim spurningum sem hún hefur til mín beint þó ekki geti ég svarað þeim öllum í hörgul.

Það er rétt sem hv. þingmaður bendir á, að með því að mæla fyrir þessu frumvarpi eru orð í tíma töluð á Alþingi og hefði það mátt gerast fyrr. En eins og hv. þingmaður þekkir er það vilji stjórnvalda að í lengstu lög takist aðilum vinnumarkaðarins að koma sér saman um efni þeirra reglna sem á vinnumarkaðnum gilda. Það hefur hins vegar ekki tekist í þessu efni eins og hv. þingmaður vék að. Um þetta hafa verið deilur í samfélaginu. Með réttu hefðum við átt að vera búin að taka í gildi þær tilskipanir Evrópusambandsins sem hér um ræðir í ágúst í fyrra. Því má segja að hver sé að verða síðastur í þeim efnum.

Hv. þingmaður spyr hvort unglæknar séu sáttir við efnisinnihald þess frumvarps sem hér er til umræðu. Ég geri mér ekki grillur um það, hæstv. forseti, að þeir séu í öllum atriðum sáttir við efnisinnihaldið. Þeim hefur verið gerð grein fyrir því. Ég tel þó að mér sé óhætt að segja að Félag unglækna fagnar því að frumvarpið sé fram komið og það komi til efnislegrar umræðu og fái þá afgreiðslu sem því ber á Alþingi.

Hv. þingmaður spyr hvort ekki sé rétt skilið að þegar til fullrar framkvæmdar er komið gildi sú regla að hámarksvinnutími unglækna verði 48 stundir á viku. Það er rétt skilið. Með leyfi forseta vil ég vitna í athugasemdir við frumvarpið. Þar segir:

„Læknar í starfsnámi eru undanskildir meginefni IX. kafla laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, sem fjallar um hvíldartíma, frídaga og hámarksvinnutíma, en meginreglan um daglega lágmarkshvíld og vikulegan frídag sem tengist daglegum hvíldartíma hefur gilt um vinnutíma þeirra, sbr. 2. tölul. 52. gr. a laganna. Er því lagt til með frumvarpi þessu að aðrar meginreglur vinnutímatilskipunarinnar, svo sem um hlé á vinnu, hámarksvinnutíma á viku og vinnutíma næturvinnustarfsmanna, gildi einnig um vinnutíma lækna í starfsnámi. Að því er varðar lækna í starfsnámi er aðildarríkjum engu síður veittur sérstakur aðlögunartími þannig að heimilt er að innleiða meginreglu vinnutímatilskipunarinnar um 48 klukkustunda vikulegan hámarksvinnutíma í þrepum á allt að átta árum samkvæmt sérstökum skilyrðum og er veitt tiltekið svigrúm með tilliti til viðmiðunartíma vikulegs hámarksvinnutíma ...“

Það er einmitt, hæstv. forseti, lagt til í þessu frumvarpi að meginreglan um vikulegan hámarksvinnutíma verði innleidd hér á landi í þrepum á fimm árum. Önnur ákvæði laganna um vinnutíma koma að fullu til framkvæmda við gildistöku laganna verði frumvarpið samþykkt.

Hv. þingmaður spyr sömuleiðis hvaða áhrif þetta muni hafa á spítölunum. Það sem liggur hér fyrir, hæstv. forseti, og betri upplýsingar hef ég ekki og á þær verð ég að reiða mig, kemur fram í kostnaðarumsögn fjármálaráðuneytisins. Það kemur mér satt best að segja talsvert á óvart ef jafnmikið ber í milli og hv. þingmaður bendir hér á. En framhald málsins verður að sjálfsögðu í höndum aðila vinnumarkaðarins þ.e. atvinnurekandans og félags launþeganna. Þeirra er núna, ef frumvarp þetta verður að lögum, hæstv. forseti, að semja á grundvelli þessara laga um tilhögun starfsins á spítölunum. Ég er, og ítreka það, hæstv. forseti, ekki í stakk búinn til þess að leggja á það frekara mat hér en þegar hefur verið gert og kemur fram í kostnaðarumsögn fjármálaráðuneytisins. En þar segir, með leyfi forseta:

„Að óbreyttu er ekki óraunhæft að gera ráð fyrir að stöðum unglækna við sjúkrahúsin fjölgi um 10 ár hvert næstu ár vegna innleiðingar tilskipunarinnar og verði um 160 til 170 í lok árs 2008. Árleg aukning útgjalda ríkissjóðs næmi þá um 35 millj. kr.“

Ég hef ekki heldur ástæðu til að rengja það en get ekki annað en treyst á það sem hér hefur komið fram og hef ekki aðrar og betri upplýsingar til að reiða mig á.

Eins og ég hef áður sagt legg ég til að þessu frumvarpi verði vísað til hv. félagsmálanefndar til umfjöllunar þar. Komi eitthvað þar fram sem ekki hefur komið fram við þessa umræðu þá verðum við að sjálfsögðu að horfa til þess og taka tillit til þess við lokafrágang frumvarpsins.