132. löggjafarþing — 14. fundur,  3. nóv. 2005.

Virðisaukaskattur.

12. mál
[12:44]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Við erum að ræða frumvarp tiltölulega einfalt í texta og ekki langt í prentuðu máli en það er í raun mikilvægt mál og stefnumótun um það hvernig ríkið taki inn til sín tekjur af samgöngubótum, í þessu tilfelli af Hvalfjarðargöngum.

Frumvarpið kveður á um það í 1. gr. að felldur verði niður virðisaukaskatturinn í notkun Hvalfjarðarganganna, þ.e. að virðisaukaskattur verði ekki lagður á gjöldin fyrir að aka í gegnum göngin. Í greinargerð með frumvarpinu sést hvað ríkið hefur haft í tekjur fram til júní 2004 af virðisaukaskatti sem lagður er sérstaklega á þann samgöngumáta að fara í gegnum Hvalfjarðargöng sem að vísu eru sérstök að einu leyti og allt öðruvísi en önnur jarðgöng á Íslandi, því við förum niður í sjávarbotninn og undir sjóinn. En varla getur það verið ástæðan fyrir því að menn hafi virðisaukaskatt á Hvalfjarðargöngum heldur er ástæðan sú að á sínum tíma var þetta mannvirki framkvæmt í einkaframkvæmd og tekið upp það fyrirkomulag að göngin skyldu greidd niður með akstursgjöldum þar í gegn.

Mér finnst það hins vegar ekki réttlæta, hæstv. forseti, að það verði til þess að ríkið hafi sérstakar viðbótartekjur af þessari fjárfestingu sem einkaaðilar lögðu í með því að taka til sín sérstök gjöld fyrir það að menn nýti sér þessa afar þörfu og góðu framkvæmd, Hvalfjarðargöngin. Þess vegna höfum við þingmenn Frjálslynda flokksins lagt til að nú verði stigið það skref að virðisaukaskatturinn verði felldur niður af þessu samgöngumannvirki og menn þurfi ekki sérstaklega að greiða ríkinu virðisaukaskatt fyrir að aka um þetta góða mannvirki sem hefur að mínu viti fært okkur marga áfanga. Það hefur stytt vegalengdir. Það hefur gert það að verkum að allir landsmenn njóta þess að vegalengdir á þjóðveginum vestur og norður í land eru styttri en áður var. Við losnuðum við að aka fyrir Hvalfjörðinn í öllum veðrum og því miður var það nú svo með Hvalfjörðinn að þar urðu stundum mjög hörmuleg slys. Ég held að ég muni það örugglega rétt að í Hvalfjarðargöngunum hafi ekkert alvarlegt slys orðið, þ.e. slys þar sem veruleg meiðsl hafi orðið á fólki eða dauðaslys. En því miður áttum við við það að búa iðulega á veginum fyrir Hvalfjörð þegar aðstæður voru sem verstar og hálka og vond veður.

Hæstv. forseti. Þó á það megi benda að hægt sé að aka fyrir Hvalfjörð á jafnfallegum dögum og núna hér á suðvesturhorni landsins og að það geti verið ákaflega heilsusamlegur rúntur að fara fyrir Hvalfjörðinn í góðviðri og skemmtilegt — þar er fögur náttúra o.s.frv. — og fjölskyldur geri það kannski á góðviðrisdögum af og til að aka fyrir Hvalfjörð þá finnst mér það ekki nein rök fyrir því að halda áfram þessari gjaldtöku sérstaklega til ríkisins. Þeir sem nota göngin mest eru þeir sem búa á Vesturlandi. Eftir að þessi góðu samgöngumannvirki voru tekin í notkun er miklu auðveldara fyrir þá að sækja sér ýmsa þjónustu inn á Reykjavíkursvæðið og einnig að njóta þeirrar menningar sem höfuðborgarsvæðið býður upp á. En þeir greiða jafnframt mest til ríkisins í virðisaukaskatt fyrir að nota Hvalfjarðargöngin.

Samt er nú svo, og rétt er að taka það fram til þess að valda ekki misskilningi í þessari umræðu, að framkvæmdir eins og Hvalfjarðargöng nýtast öllum landsmönnum eins og reyndar allar varanlegar lausnir í vegamálum gera þegar þær eru teknar í notkun hér á landi, hvort sem við erum að stytta vegalengdir og auka umferðaröryggi með því að þvera firði og lagfæra verulega erfiða vegarkafla með því eða, eins og við höfum lagt til í Frjálslynda flokknum, að fara undir fjöllin í staðinn fyrir að fara yfir þau með því að leggja láglendisvegi með jarðgöngum til að losna þannig við erfiðustu hjallana í aðalsamgöngukerfi landsins. Við höfum sem sagt flutt um það mál að móta beri stefnu um að hér verði gerð þau jarðgöng sem við teljum okkur þurfa á næstu 20 árum sem geta orðið til þess að færa vegakerfið almennt á láglendisvegi og ná því umferðaröryggi sem m.a. jarðgöngin undir Hvalfjörð hafa sýnt að hægt er að ná.

Ég get tekið annað dæmi, Vestfjarðagöngin þar sem reynslan er eiginlega sú sama, að slysatíðni er í algjöru lágmarki miðað við það sem við höfum þekkt á þjóðvegum landsins að ég tali nú ekki um ef við bærum saman Vestfjarðagöngin annars vegar og það sem við þurftum að búa við þar áður, að aka yfir fjöllin þar í öllum veðrum, yfir Breiðadals- og Botnsheiðar. Sama reynslan hefur nefnilega orðið af Vestfjarðagöngunum og Hvalfjarðargöngunum. Þetta er mikið umferðaröryggismál og mikið hagkvæmnismál sérstaklega fyrir íbúana sem næst búa. En að sjálfsögðu njóta allir landsmenn þessara framkvæmda þegar þeir eru á ferð um landið og Hvalfjarðargöngin eru einfaldlega þannig í sveit sett að landsmenn allir nota sér þau auðvitað mjög mikið.

Þess vegna er það einfaldlega niðurstaða okkar í Frjálslynda flokknum að nú sé kominn tími á að taka enn einn áfangann í því að reyna að lækka þessa gjaldtöku með því að fella niður virðisaukaskattinn. Við höfum líka velt því fyrir okkur og höfum reyndar bent á það, sérstaklega í umræðunni um Sundabraut, að ekki sé með nokkrum hætti hægt að færa fyrir því rök að leggja Sundabraut í einkaframkvæmd og taka gjöld þar og vera jafnframt áfram með gjaldtöku í Hvalfjarðargöngum. Allir sjá sem sjá vilja að slíkt fyrirkomulag, ef af verður, er mjög ósanngjarnt fyrir utan það að það er nú bara mjög illframkvæmanlegt að mínu viti að taka gjald á Sundabrautinni því hún felst nú ekki bara í því að tengja saman Kjalarnesið og Reykjavík — það er reyndar sama byggðin — heldur styttir hún auðvitað vegalengdir og eykur umferðaröryggi. Við sjáum það bara einfaldlega ekki í hendi okkar í Frjálslynda flokknum hvernig menn ætla að útfæra það svo sanngjarnt geti talist. Við höfum bent á að það sé a.m.k. algjör forsenda þess að leggja eitthvert gjald á Sundabrautina að búið verði að fella niður gjaldtökuna í Hvalfjarðargöngum og við höfum bent á það sem eðlilegan þátt í því máli að skoða Sundabrautina og Hvalfjarðargöngin í samhengi.

Ekki er um það deilt lengur, held ég, á Íslandi að þar sem hægt er að stytta vegalengdir verulega eða hægt að auka umferðaröryggi verulega með gerð jarðganga að þá skuli það gert. Þó að sú ákvörðun hefði náttúrlega verið miklu betur tekin fyrir mörgum árum síðan að gera göng úr Hnífsdal yfir í Bolungarvík heldur en að fara Óshlíðarleiðina þá er það nú samt svo að þrátt fyrir alla þá geysilegu fjármuni sem búið er að leggja í Óshlíðarveginn þá var ríkisstjórnin nýlega að ákveða að viðunandi umferðaröryggi næðist ekki þar nema með því að taka að minnsta kosti stóran hluta af þeim vegi og færa inn í jarðgöng. Þetta eru auðvitað sömu aðferðir og önnur ríki hafa beitt við að búa til varanlegar lausnir í vegamálum. Þurfum við ekki annað en líta til Færeyinga og Norðmanna í því tilliti til þess að sannfærast um að þetta eru þær aðferðir sem best duga við varanlega vegagerð og aukið umferðaröryggi, þ.e. að gera jarðgöng þar sem hægt er að stytta vegalengdir og auka umferðaröryggið.

Við Íslendingar höfum verið ansi seinir til í þessa veru þó að vonandi sé að verða breyting á. Ég vonast til þess að tillaga okkar um 20 ára áætlun um það hvernig vegunum verði komið á láglendið með því að gera ein 15 jarðgöng sennilega í viðbót við það sem nú er, fái jákvæða afgreiðslu í nefndum þingsins. Ég er sannfærður um að með slíkri stefnumótun séum við að taka algjörlega réttar ákvarðanir fyrir framtíðina. Það hafa m.a. Hvalfjarðargöngin sýnt okkur, Vestfjarðagöngin núna vonandi, Fáskrúðsfjarðargöngin, göngin undir Almannaskarð og auðvitað höfum við síðan hin fyrri göng sem voru sett undir fjöll sem lausnir á sínum tíma, t.d. Strákagöng, Ólafsfjarðargöng og göngin úr Eskifirði yfir í Norðfjörð. En þau eru nú börn síns tíma. Þetta voru framkvæmdir sem urðu auðvitað til mikils hagræðis og umferðaröryggis á sinni tíð. En þau þarf nú sjálfsagt að betrumbæta og lagfæra enda hafa menn tekið ákvörðun um að gera sérstök göng á Norðurlandi úr Siglufirði yfir í Héðinsfjörð og síðan yfir í Ólafsfjörð.

Við þekkjum umræðuna fyrir austan og ég er ekki hissa á því þó að þeirri umræðu vaxi fiskur um hrygg og að hún aukist mjög þegar menn sjá hvers konar samgöngubætur eru af jarðgöngunum. En það er eins og menn þurfi eiginlega að upplifa þessa staðreynd til þess að átta sig á því hversu mikils virði þetta er. Eins og eðlilegt er er komin upp hávær umræða um það á Austfjörðum að losna við Hvalnesskriður og gera jarðgöng úr Lóni yfir í Álftafjörð. Það er mjög eðlilegt miðað við það vegarstæði og áhættuna af því. Þar gilda eiginlega sömu rök og fyrir Óshlíðarveginn. Það eru þessi rök, annars vegar um umferðaröryggið og hins vegar um styttingu vegalengdanna, orkusparnað og bara betra og fullkomnara vegakerfi fyrir framtíðina, sem gera það að verkum hversu mikla áherslu menn leggja núna á umræðuna um jarðgangagerð hér á landi. Það er ekki spurning um það í mínum huga að hún er sú leið sem við eigum að fara til að stytta vegalengdir og auka umferðaröryggið.

Þetta vildi ég segja almennt um þetta mál. Ég tel að nú sé kominn tími á að fella niður virðisaukaskatt í Hvalfjarðargöngin og síðar að fella niður gjaldtökuna. Eftir sem áður verður ekki undan því vikist varðandi Hvalfjarðargöngin að hafa þar ákveðið eftirlit með umferðinni og það verður auðvitað að vera vaktstöð við göngin til að tryggja þar umferðaröryggi og bregðast sérstaklega við slysum því það er nauðsynlegt að mínu viti.

Það var niðurstaða okkar í Frjálslynda flokknum að leggja til að fella virðisaukaskattinn niður í Hvalfjarðargöngunum. Einnig segir í 2. gr. frumvarpsins, eins og hv. 1. flutningsmaður, Magnús Þór Hafsteinsson, vék að áðan, að lækka eigi virðisaukaskatt af sölu tímarita og dagblaða, landsmálablaða og héraðsfréttablaða hvort sem þau eru seld prentuð eða í rafrænu formi. Hér erum við að tala um ákveðið samræmingaratriði og við teljum eðlilegt að á þessu sé tekið. Við höfum þess vegna tekið það inn í þetta mál þó að um alls óskyldan hlut sé að ræða miðað við gjaldtökuna í Hvalfjarðargöng sem er meginmál þessa frumvarps.

Ekki fer á milli mála, hæstv. forseti, að sparast hafa miklir fjármunir á undanförnum árum við Hvalfjarðargöngin vegna styttri vegalengda og einkum vegna færri slysa. Ég tel að við eigum að draga af þessu lærdóm. Þetta er skýrt dæmi um hvaða áfangar eru okkur til mikilla hagsbóta. Við eigum að velja þær leiðir í framkvæmdum sem skipta mestu máli á komandi árum.

Rökin fyrir gjaldtökunni í Hvalfjarðargöngin á sínum tíma voru þau að hægt væri að aka fyrir Hvalfjörð. Með sama hætti ræða menn að gera megi göng undir Vaðlaheiði í einkaframkvæmd og taka þar gjald fyrir og benda á að enn sé til staðar vegurinn um Víkurskarð. En ég tel ekkert sjálfgefið, hæstv. forseti, að vera með sérstaka gjaldtöku á ákveðnum leiðum í samgöngumálum, hvort sem við erum að laga vegi yfir fjöll, gera þá t.d. tvöfalda og gera þá öruggari, eða leysa þetta til varanlegrar framtíðar um áratugi og árhundruð með gerð jarðganga. En auðvitað kann svo að vera að í einstökum tilfellum finnist rök, vilji menn leggja þau með sér, til að flýta framkvæmdum með einkaframkvæmd og taka þá fyrir það gjald í einhver ár. En það hlýtur að því að koma, hæstv. forseti, að slíkri gjaldtöku linni og það er einmitt það sem við höfum reyndar velt upp, þó ekki sé það lagt til í þessu frumvarpi, að skoða hvenær megi fella alfarið niður gjaldtökuna í Hvalfjarðargöngin.