132. löggjafarþing — 14. fundur,  3. nóv. 2005.

Aflaheimildir frá Vestfjörðum.

[14:12]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Nýr sjávarútvegsráðherra kemur af Vestfjörðum og hann telur það sitt helsta hlutverk að sannfæra húsbændur sína um það að hann ætli ekki að breyta neinu í sjávarútvegsmálum. Þó veit hann manna best að nánast engin nýliðun hefur verið í útgerð á undanförnum árum, alveg frá 1990, nema í gegnum göt á kerfinu. Og fyrir tveimur árum lokuðu menn síðasta gatinu.

Nú er það þannig að veiðiheimildirnar sem var breytt úr dagaleyfum yfir í krókaaflamarkið eru farnar að renna býsna hratt frá Vestfjörðum, t.d. runnu 35% af þessum heimildum úr Barðastrandarsýslunni á síðasta ári, 19% úr Ísafjarðarsýslu og 13% frá Ströndum. Þegar hæstv. ráðherra talar um að smábátaútgerð hafi aukist og eflst skulu menn ekki gleyma því að vertíðarflotinn er horfinn, þetta smábátakerfi kom í staðinn fyrir grunnslóðarflotann sem var hér við landið. Og það er ekki nálægt því að sá floti sé sambærilegur við þann grunnslóðarflota sem fyrir var.

Eina bjargráð hæstv. ráðherra er byggðakvóti og línuívilnun. Byggðakvótinn er þannig að menn koma til þess að hjálpa þegar allt er á þrotum og allt er í vandræðum. Það er ekki mikil von í framtíðinni í gegnum byggðakvóta, það hafa menn séð í gegnum tíðina. En þeirri iðju vilja menn halda áfram. Þetta er eyðibyggðastefna, hún hefur verið rekin í mörg ár en nú er komið að því að menn munu ekki sjá neina nýliðun í útgerð á Íslandi eftir að menn lokuðu fyrir götin.

Hæstv. ráðherra þarf að gera betur. (Forseti hringir.) Hann þarf að segja fólkinu á Vestfjörðum og víðar hvaða framtíð er í því að búa á þessum stöðum þar sem útgerð hefur verið rekin.