132. löggjafarþing — 14. fundur,  3. nóv. 2005.

Aflaheimildir frá Vestfjörðum.

[14:23]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Mikil breyting hefur orðið eftir að sóknarkerfið var lagt af. Bátum hefur fækkað talsvert mikið og það er ansi mikil fækkun á smábátum þegar maður sér upplýsingar um að þeim hafi fækkað um 108 á einu ári.

Umsvifin víða úti um land hafa minnkað talsvert með þessu breytta sóknarferli. Þau miklu umsvif og sú mikla atvinna sem fylgdi því þegar sóknardagabátarnir komu á ákveðna staði úti á landi er horfin. Við sjáum nú allt annað munstur á veiðum smábáta en við gerðum meðan dagakerfið var við lýði. Það sem við sjáum líka af þeim upplýsingum sem fyrir liggja er að viðskipti með kvótann í krókaaflamarkskerfinu hafa farið ansi hratt af stað. Sjá má að á þessu eina ári hafa yfir 2.000 tonn af þorski skipt um eigendur og um 5.000 þorskígildistonn. Það er ansi stór tala á ekki lengri tíma.

Við vitum að aðilar í stóra kerfinu sem við köllum svo, aflamarkskerfinu, eru farnir að líta hýru auga til þessara heimilda sem eru í smærra kerfinu því þorskur er jú þorskur burt séð frá því í hvaða kerfi hann er veiddur og skiptir ekki öllu máli þegar hann er kominn á borð fiskvinnslu hvort hann var veiddur í smærra kerfinu eða því stærra.

Það er afskaplega mikilvægt að ekki er hægt að flytja kvóta úr krókaaflamarkskerfinu yfir í aflamarkskerfið eða stóra kerfið en við hljótum að þurfa að velta því alvarlega fyrir okkur hvort nauðsynlegt sé að setja sérstakt kvótaþak í krókaaflamarkskerfinu því ef við horfum bara á kvótaþakið sem almennt er í fiskiveiðistjórnarlögunum, 12% í þorski, þá sýnist mér að á tiltölulega stuttum tíma geti tiltölulega fáir aðilar safnað að sér öllum smábátakvótanum og þá eru farin fyrir lítið rökin um að smábátarnir séu byggðaaðgerð og að við eigum að halda kerfinu sérstaklega fyrir þá og ekki sé hægt að flytja kvóta upp í stóra kerfið. Því langar mig að spyrja hæstv. ráðherra: Kemur til greina að setja sérstakt kvótaþak í krókaaflamarkskerfinu?