132. löggjafarþing — 14. fundur,  3. nóv. 2005.

Aflaheimildir frá Vestfjörðum.

[14:28]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F):

Frú forseti. Þetta er afskaplega einkennileg umræða, annars vegar uppleggið og að ég tali nú ekki um síðustu ræðu. Verið er að ræða um sjávarútveg og að vanda er hv. þm. Jón Bjarnason kominn upp á miðja Kárahnjúka í umræðu um sjávarútveg á Vestfjörðum. Er nema von að hægt gangi í málefnalegri umræðu um sjávarútveg þegar lagt er upp með, eins og hv. þm. Sigurjón Þórðarson gerir, að ræða eingöngu um sjávarútveg á Vestfjörðum og draga síðan einstaka þingmenn inn í þá umræðu á persónulegum nótum? Ég verð að segja, frú forseti, að mér finnst þetta alveg á mörkunum að vera tækt til utandagskrárumræðu sérstaklega. Ég hefði haldið að hér ætti að ræða um sjávarútveg, um greinina í heild sinni, og þegar rætt er sérstaklega um flutning aflaheimilda frá Vestfjörðum þá hlytu menn líka að ræða um flutning afla til Vestfjarða. En af því að línuívilnun var nefnd sérstaklega þá hafa menn reiknað það út að með þeirri ákvörðun, sem e.t.v. voru mistök, hafi einmitt orðið tilfærsla á aflaheimildum til Vestfjarða. Og eiga menn þá ekki að taka það inn í umræðuna?

Frú forseti. Það sem skiptir auðvitað mestu máli er að ræða um greinina í heild sinni. Það er eins og það fari oft fram hjá hv. þingmanni að ýmsar tækniframfarir hafi orðið í sjávarútvegi, til allrar hamingju. Það er eins og það hafi farið fram hjá hv. málshefjanda að ýmislegt er að gerast í sjávarríki okkar. Því miður hefur ekki tekist að fá upp fiskstofna, hvorki hér né annars staðar í Norður-Atlantshafi og er þó ástand þeirra líklega hvað skást hjá okkur. Það er sannarlega ekki mál sem hv. þm. Sigurjón Þórðarson mun stjórna með málflutningi sínum eða öðru. Það sem við hljótum að þurfa að ræða er: Hvað er það sem skapar skilyrðin í sjónum og með hvaða hætti eigum við að bregðast við þeim? En fyrir alla muni ekki með þeim málflutningi sem hv. þm. Sigurjón Þórðarson heldur hér uppi nú sem oftast.