132. löggjafarþing — 14. fundur,  3. nóv. 2005.

Rannsókn á þróun valds og lýðræðis.

20. mál
[14:35]
Hlusta

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um rannsókn á þróun valds og lýðræðis sem flutt er af öllum þingflokki Samfylkingarinnar á þskj. 20.

Ég byrja mál mitt á því að vitna í nýlegan þátt í Speglinum þar sem farið var yfir þetta mál um völd og lýðræði og vil með leyfi forseta vitna í það sem fram kom í Speglinum í Ríkisútvarpinu í maí á þessu ári.

„Margir fullyrða að völd stjórnmálamanna víða í heiminum hafi minnkað verulega síðustu 10–20 árin í kjölfar hnattvæðingar og almenns frelsis á markaði, en völd banka og fyrirtækja aukist að sama skapi. Spurningin er hvort sú þróun sé hættuleg lýðræðinu, eða eru minnkandi völd stjórnmálamanna kannski eins konar þroskamerki lýðræðisins 60 árum eftir seinni heimsstyrjöld? Á mánudag sögðum við frá því að þýski rithöfundurinn Günter Grass hélt því fram í ræðu í síðustu viku að lýðræðinu sem Þjóðverjum var fært fyrir 60 árum stafi um þessar mundir mest ógn af því að völdin í þjóðfélaginu hafi að miklu leyti færst frá stjórnmálamönnum og í hendur þeirra afla sem stýra efnahagslífinu. Þingræðið sé orðið eins konar deild í kauphöllum, sagði hann, öllu er stýrt af bönkum og fyrirtækjasamstæðum. Það er ekki að undra, sagði hann, að æ fleiri skuli fá það á tilfinninguna að einhver samráðsöfl efnahagslífsins hafi alla þræði í hendi sér og að þingkosningar séu bara farsi. Þessi dramatísku orð nóbelsverðlaunarithöfundar eru pæling en eru vissulega áhugaverð.“

Meginefni þeirrar tillögu sem ég mæli fyrir gengur að inntaki til út á það sem fram kom í þessum tilvitnuðu orðum rithöfundarins en í tillögugreininni er lagt til að fram skuli fara rannsókn á þróun valds og lýðræðis í íslensku samfélagi. Könnuð verði áhrif þeirrar þróunar síðustu 20 árin og metið hvaða áhrif hún kunni að hafa á komandi árum. Markmiðið verði að fá sem gleggsta mynd af því hvort þrískipting ríkisvaldsins sé orðin óljós í framkvæmd og meta áhrif þess á lýðræðisþróunina og samfélagið í heild. Einnig verði skoðað hvort völd embættismanna hafi aukist meira en eðlilegt getur talist og hvaða áhrif fjölmiðlar hafa haft á þróun stjórnmála og samfélagið í heild.

Við rannsóknina verði jafnframt lagt mat á hvort og að hve miklu leyti völd hafa færst frá kjörnum fulltrúum til einkaaðila, m.a. með breytingu á efnahagslegu valdi í krafti tilfærslu eigna og fjármagns og hvort ákvarðanir og fjárfestingar stórra valdablokka í atvinnu- og fjármálalífi hafi nú verulega meiri áhrif en áður á afkomu og þróun þjóðarbúsins. Lagt verði mat á framhald þessarar þróunar fyrir efnahags- og atvinnulíf og með tilliti til eigna- og tekjutilfærslna í þjóðfélaginu.

Virðulegi forseti. Eins og heyra má af þessu er verulega mikið í fang færst að fara í slíka úttekt sem hér er lögð til. Engu að síður tel ég að þetta sé viðfangsefni sem nauðsynlegt er að tekið verði á og að Alþingi hafi frumkvæði að því að slík rannsókn á þróun valds og lýðræðis í þjóðfélaginu fari fram. Miklar breytingar og hræringar hafa orðið í efnahagslífinu, á fjármálamarkaðnum og víðar sem hafa haft áhrif á lýðræðisþróunina og hafa t.d. þjóðfélög eins og Noregur, Danmörk og Svíþjóð ráðist í sambærilegar úttektir með athyglisverðri niðurstöðu.

Ég vil nefna hér áður en ég held lengra að ég tel líka mikilvægt að þróunin verði skoðuð út frá áhrifunum á valdahlutföll kynjanna í þjóðfélaginu. Það er ástæða til að hafa af því áhyggjur að hlutur kvenna, t.d. í forustustörfum í atvinnulífinu, hafi minnkað og var hann ekki mikill fyrir. Um þetta hafa verið umræður í þjóðfélaginu að undanförnu og ástæða er líka til að rifja upp svar sem ég fékk frá hæstv. viðskiptaráðherra á síðasta þingi þar sem fram kemur að sé litið til stjórnenda lífeyrissjóða og stjórnenda í atvinnu- og fjármálalífi eru þar í forustustörfum yfir 90% karlar en innan við 10% konur. Ég vil halda þessu til haga, þessari hlið á málinu, vegna þess að í allri lýðræðisþróun og lýðræðisuppbyggingu er mikilvægt að skoða málin líka út frá sjónarhóli jafnréttis kynjanna í stjórnmála- og atvinnulífi. Hallar þar verulega á að því er varðar atvinnulífið þó að vissulega sé þróunin jákvæð að því er varðar þátttöku kvenna í stjórnmálum. Þó má vissulega gera þar betur.

Ég nefndi að farið hefði fram sambærileg rannsókn og hér er lögð til í Noregi, Danmörku og Svíþjóð. Hvatir þeirra rannsókna í Danmörku og Noregi voru þær miklu breytingar sem höfðu orðið í þessum löndum með aukinni alþjóðavæðingu og vegna breytinga á umsvifum í atvinnu- og fjármálalífi. Það eru þær forsendur og þau rök sem ég dreg fram fyrir því að nauðsynlegt sé að þessi úttekt fari fram. Niðurstaða norsku rannsóknarinnar var m.a. að breytingar á umsvifum á markaði höfðu leitt til meiri fákeppni og að fulltrúalýðræðið væri í tilvistarkreppu og niðurstaðan bæði í Danmörku og Noregi var sú að völd þingmanna hefðu veikst.

Það er alveg ljóst og hefur ítrekað verið rætt líka í þingsölum að þrískipting ríkisvaldsins hefur með árunum þótt verða óljósari í framkvæmd og rætt er um að ákvarðanir sem máli skipta fyrir þjóðarbúið séu í auknum mæli að færast frá vettvangi stjórnmálanna yfir á vettvang fjármála- og atvinnulífs. Þá telja margir að vald embættismanna hafi aukist verulega og að kjörnir fulltrúar þjóðarinnar hafi fært þeim meira vald til ákvörðunar en eðlilegt getur talist.

Í tillögunni er jafnframt lagt til að metið verði vald fjölmiðla og áhrif þeirra á samfélagsþróunina en í sambærilegri rannsókn sem unnin var í þessum norrænu ríkjum sem ég áður nefndi var sá þáttur einnig hluti viðfangsefnisins. Flutningsmenn telja að brýnt sé orðið að leggja mat á þessa þróun og fá af henni heildarmynd þannig að hægt sé að bregðast við ef ástæða þyki til.

Með rannsókn sérfræðinga væri hægt að leggja mat á hvort slík tilfærsla hafi orðið á valdmörkum þeirra þriggja valdþátta sem stjórnskipunin byggist á að stoðir lýðræðis og góðrar stjórnskipunar í landinu hafi veikst. Ég held að mikilvægt sé, virðulegi forseti, að leggja mat á þetta. Jafnframt er lagt til að varpað verði skýru ljósi á þróun valda- og eignasamþjöppunar og hvaða áhrif meiri háttar ákvarðanir stórra valdablokka í fjármála- og atvinnulífi hafa haft og geta haft á atvinnulífið, á afkomu heimila og þjóðarbúið í heild. Í framhaldi af þessari rannsókn væri ástæða til að skoða hvort tilfærsla fjármagns og valds hafi leitt til verulegrar gliðnunar á eigna- og tekjuskiptingunni í þjóðfélaginu og stuðlað að aukinni stéttskiptingu sem ég tel veigamikinn þátt í þeirri rannsókn.

Umræðan hér á landi hefur snúist um hvort löggjafarvaldið sé sífellt að veikjast á sama tíma og framkvæmdarvaldið styrkist. Þar er átt við framsal Alþingis á valdi í lögum og víðtækar reglugerðarheimildir framkvæmdarvaldinu til handa, auk þess sem löggjafarvaldinu sé gert stöðugt erfiðara að sinna eftirlitshlutverki sínu með framkvæmdarvaldinu. Þetta var ágætlega orðað í grein eftir Friðgeir Björnsson í Tímariti lögfræðinga árið 1999 þar sem m.a. er vikið því að ekki sé fjarri lagi að segja að handhöfn bæði framkvæmdarvalds og löggjafarvalds sé hjá ríkisstjórn með forsætisráðherra í broddi fylkingar í flestu sem einhverju máli skiptir.

Þessi orð Friðgeirs Björnssonar ættu að vera áhyggjuefni á þessari löggjafarsamkundu þegar því er haldið fram að handhöfn bæði framkvæmdarvalds og löggjafarvalds sé hjá ríkisstjórn með forsætisráðherra í broddi fylkingar í flestu sem máli skiptir.

Upplýsingaþjónusta Alþingis skoðaði þetta mál í fyrra þegar það var fyrst lagt fram að beiðni flutningsmanna og tók saman stutta lýsingu á sambærilegum rannsóknum, sem ég vitnaði til, sem fram hafa farið á þróun valds og lýðræðis í Noregi, Danmörku og Svíþjóð. Rannsóknirnar í þessum löndum beindust að stöðu valds og lýðræðis við upphaf 21. aldar. Hvati rannsóknanna voru þær breytingar sem hafa orðið á viðkomandi samfélögum með aukinni alþjóðavæðingu og breytingum á skyldum ríkisvaldsins, t.d. vegna minni afskipta af viðskiptalífinu.

Ein af helstu ástæðum þess að ráðist var í rannsóknina í Danmörku var að þingið óttaðist að það væri að missa völd. Niðurstaða rannsóknarinnar var þó á þann veg að danska þingið hefði aukið völd sín á kostnað framkvæmdarvaldsins, m.a. með aukinni sérhæfingu þingmanna, auk þess sem fjöldi minnihlutastjórna í Danmörku hefur haft þessi áhrif, sem er athyglisvert. Það er ekki síst athyglisvert fyrir okkur Íslendinga sem höfum búið við samsteypustjórnir lengst af.

Út af fyrir sig væri hægt að hafa langt mál um þessa tillögu, en ég mælti einnig fyrir henni á síðasta þingi. Þá tóku þátt í þeirri umræðu, að mig minnir, þingmenn úr öllum flokkum. Það kom fram mjög jákvæð afstaða til þessarar tillögu frá þingmönnum allra flokka og er full ástæða til þess að ætla að þingið og sú nefnd sem fær málið til umfjöllunar geti tekið með jákvæðum hætti á þessu máli og að slíkri rannsókn verði hrundið af stað.

Á síðasta þingi var málið sent til umsagnar. Ég vil ljúka a.m.k. fyrri umræðu málsins með því að vitna í þær umsagnir sem voru mjög jákvæðar, og almennt var hvatt til þess að sú rannsókn sem hér er gert ráð fyrir á þróun valds og lýðræðis verði gerð. ASÍ taldi að hér væri um að ræða mjög brýnt rannsóknarefni fyrir íslenskt samfélag, stofnanir þess, hagsmunasamtök og aðila á markaði. Félagsvísindadeild Háskóla Íslands taldi að mjög mikilvægt væri að gera ítarlega og vandaða rannsókn á lýðræði og valdi á Íslandi. Slíkar rannsóknir hafi verið gerðar á undanförnum árum í Noregi, Danmörku og Svíþjóð. Orðrétt segir síðan í umsögninni, með leyfi forseta:

„Ljóst er að norrænu rannsóknirnar varpa mikilvægu ljósi á stöðu lýðræðisins í þessum löndum og eru nauðsynlegur grundvöllur upplýstrar umræðu um framtíð lýðræðiskerfanna og margvíslegan vanda sem ýmsir telja að þau standi frammi fyrir. Jafnframt hefur komið í ljós að sambærilegar upplýsingar sárvantar um Ísland, þó ýmsar rannsóknarniðurstöður íslenskra stjórnmálafræðinga undanfarin ár hafi komið að góðu gagni.“

Í umsögn Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands kemur fram að stofnunin telji rannsóknina þarfa í ljósi þeirra þjóðfélagsbreytinga sem orðið hafa á undanförnum áratugum og álitaefna sem vaknað hafa um tilfærslu valds, ekki aðeins á milli þriggja þátta ríkisvaldsins heldur einnig frá ríkisvaldinu til annarra sviða samfélagsins. Bent er á þátt sem vert væri að rannsaka, þ.e. hvaða áhrif það hefur á vernd mannréttinda að vald hefur færst í ríkum mæli á hendur annarra en handhafa ríkisvaldsins. Orðrétt segir síðan, með leyfi forseta:

„Ljóst er að hætta á því að mannréttindi séu skert stafar því ekki aðeins frá ríkinu heldur einnig frá valdamiklum aðilum á vettvangi einkaréttarins.“

Sigurður Líndal prófessor sendi einnig umsögn um tillöguna en þar kemur fram að hreyft hafi verið mjög þörfu máli, sem Alþingi ætti að gefa fyllsta gaum. Jafnframt er í þeirri umsögn bent á að athuga beri hvort til greina komi að semja við háskólastofnanir um verkið, t.d. Lagastofnun og Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands.

Virðulegi forseti. Eins og heyra má af þessum umsögnum hefur þetta þingmál ekki bara fengið jákvæðar undirtektir í þingsal heldur líka frá flestum þeirra umsagnaraðila sem fjölluðu um þetta mál, sem undirstrikar mikilvægi og þýðingu þess að í slíka rannsókn verði ráðist. Með rannsókn sérfræðinga er hægt að leggja mat á hvort slík tilfærsla hafi orðið á valdmörkum þeirra þriggja valdþátta sem stjórnskipunin byggir á, að stoðir lýðræðis og góðrar stjórnskipunar í landinu hafi veikst og gangi gegn eðlilegri lýðræðisþróun.

Virðulegi forseti. Ég vonast eftir því að þessi tillaga fái jákvæðar undirtektir í þingsal og í nefnd þeirri sem fær málið til meðferðar og hún komi aftur til kasta þingsins þannig að þingið fái tækifæri til þess að taka afstöðu til þessarar tillögu. Ég legg til, virðulegi forseti, að tillagan gangi til síðari umræðu og hv. allsherjarnefndar.