132. löggjafarþing — 14. fundur,  3. nóv. 2005.

Rannsókn á þróun valds og lýðræðis.

20. mál
[14:59]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil segja fáein orð um þetta mál. Ég tel að mikil ástæða sé til þess að sú vinna fari fram sem hér er lagt til. Það er auðvitað búin að vera töluverð umræða um meðferð valds í samfélaginu á undanförnum árum og ekki að ástæðulausu. Hér hafa valdsmenn gengið fram með býsna undarlegum hætti, ekki einu sinni heldur margoft. Menn hafa tekið sér vald sem a.m.k. mér finnst að hafi verið afar óeðlilegt að væri gert. Við höfum horft upp á meiri hlutann í Alþingi afgreiða hér mál sem okkur hefur verið fullkunnugt um að hefur engan veginn verið meiri hluti fyrir í raun. Þar hafa menn rétt upp hendur, verið fjarverandi eða beygt sig undir niðurstöðu sem hefur verið fengin fram innan stjórnarflokkanna.

Nú er ég ekki að halda því fram að menn þurfi ekki að ná heildarsamkomulagi um stjórn landsins heldur tel ég hins vegar að menn hafi gengið of langt hvað varðar slíka samninga um einstök mál. Það er hægt að segja það — ég hef a.m.k. þá skoðun — að Alþingi sem slíkt, alþingismenn, hafi fullkomlega vald á því að breyta þessum hlutum. Hér getur meiri hluti á Alþingi, þ.e. meiri hluti sem er myndaður um málefni en ekki um ríkisstjórn, auðvitað fengið fram allt það sem verið er að tala hér um. En til þess þurfa menn auðvitað að hafa sjálfstæði. Það þarf að verða breyting á því hvernig þingmenn líta á stöðu sína hér því að allt of mikið hefur borið á því að menn líti á sig sem þjóna framkvæmdarvaldsins, þjóna ríkisstjórnar í einstökum málum og einhverri heildarniðurstöðu sem ríkisstjórn vill ná fram. Það á aldrei að ná út yfir öll mál. Það á að vera hægt að ná fram bæði umfjöllun og niðurstöðu um mikilvæg mál á Alþingi án þess að ríkisstjórnarmeirihluti geti alltaf komið í veg fyrir það. Þó vitað sé að það sé raunverulegur meiri hluti ef menn standa við sína sannfæringu fyrir málum þá komast þau ekki fram hér. Stjórnarandstæðingar hafa upplifað það í gegnum tíðina að hafa lagt hér fram mál og fjallað um þau. Þau hafa verið stöðvuð í nefndum og komið hefur verið í veg fyrir að þau fengju afgreiðslu í þinginu.

Þetta er vandamál sem þarf að velta fyrir sér. Ég held að þetta hafi gerst kannski meira hjá okkur en öðrum þjóðum vegna þess að við höfum sífellt búið við meirihlutastjórnir. Minnihlutastjórnir breyta þessari mynd töluvert mikið. Ég held að það hefði verið heppilegt fyrir þingið að búa við minnihlutastjórnir öðru hvoru. Það hefur ekki verið hefð fyrir því hérna.

Valdið hefur farið út um víðan völl finnst mér á undanförnum árum og ég held að sjálfstæði þingsins hafi verið að hraka gagnvart ýmsum aðilum í samfélaginu. Við höfum séð að öflug hagsmunasamtök ráða miklu meira um afstöðu þingmanna og ríkisstjórna í dag en þau gerðu. Ég nefni bara t.d. forustumenn í sjávarútvegi. Auðvitað er afl forustumanna í landbúnaði miklu eldra. En það hefur nú enst býsna lengi. Enn þann dag í dag virðist þessi fámenna stétt hafa gríðarleg áhrif á stjórn landsins og geta haldið utan um fyrirkomulag sem virðist ekki vera mikil sannfæring fyrir að eigi að vera til framtíðar.

Það virðist vera að það vanti sjálfstæði þingmanna til þess að standa gegn vilja einstakra hagsmunasamtaka. Það hefur oft komið fram. Það hefur t.d. verið þannig með sjávarútvegsmálin í gegnum tíðina að þjóðin hefur alla tíð verið á móti eignarhaldinu í sjávarútvegi, bara alla tíð. Það er til fjöldinn allur af skoðanakönnunum sem sýnir að á bilinu frá 50–90% af stuðningsmönnum stjórnmálaflokkanna í landinu er á móti þessu eignarhaldi sem er á veiðiheimildum í sjávarútvegi. Samt sem áður hafa menn viðhaldið þessu fyrirkomulagi. Það segir sitt um það hvaða sjálfstæði menn hafa. Einstakir þingmenn sem hafa talað gegn því máli hafa síðan horfið úr sölum Alþingis eða fallist á niðurstöður eftir að mál hafa verið þæfð í stjórnarflokkum endalaust og alltaf halda menn áfram sömu brautina þó afstaða þjóðarinnar liggi fyrir.

Fyrrverandi forsætisráðherra, Davíð Oddsson, var fyrirferðarmikill á þeim tíma sem er nú liðinn. Hann beitti t.d. áhrifum sínum gagnvart Hæstarétti eins og frægt er orðið. Auðvitað hlýtur að vera hluti af því að skoða hvernig hefur verið farið með vald og hvernig valdið hefur færst til í þessu samfélagi, að breyta fyrirkomulaginu á því t.d. hvernig menn velja hæstaréttardómara. Það er ekki vansalaust að vinir og ættingjar forsætisráðherra séu skipaðir í Hæstarétt. Það hlýtur að vera mikið umhugsunarefni.

Það hlýtur líka að vera mikið umhugsunarefni þegar nánustu samstarfsmenn t.d. núverandi. forsætisráðherra voru skipaðir í Hæstarétt. Er þetta samfélag svona óskaplega lítið eða hvað? Ég held ekki. Ég held að engar tilviljanir séu á bak við það hvernig menn hafa farið með valdið. Það eru engin ráð önnur en að taka þetta vald frá framkvæmdarvaldinu. Þess vegna er svo nauðsynlegt að alþingismenn fari að líta á sig sem sjálfstæðar persónur sem bera ábyrgð á stjórn landsins en ekki sem hluta af einhverju valdi sem verður til í gegnum einhvers konar ríkisstjórnarsamstarf og telja sig einhvern veginn nauðbeygða til þess að styðja niðurstöður sem verða til á því stjórnarheimili, hverjar svo sem þær næstum því eru. Þetta held ég að sé aðalvandamálið.