132. löggjafarþing — 14. fundur,  3. nóv. 2005.

Rannsókn á þróun valds og lýðræðis.

20. mál
[15:07]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Það mál sem hér er á ferðinni, tillaga til þingsályktunar um rannsókn á þróun valds og lýðræðis, er eitt af þeim málum sem Samfylkingin leggur megináherslu á núna á þessu þingi eða í upphafi þessa þings. Þetta er að vísu ekki í fyrsta sinn sem þetta mál kemur fram eins og 1. flutningsmaður, hv. þingmaður Samfylkingarinnar Jóhanna Sigurðardóttir, hefur gert grein fyrir. Það var tekið nokkuð vel í þetta mál þegar það kom hér fram fyrst og þess vegna freistum við þess núna í Samfylkingunni að koma með það hér inn aftur og vita hvort ekki fæst við það almennur stuðningur í þinginu og það fáist afgreitt á yfirstandandi þingi.

Málið felur í sér rannsókn á þróun valds og lýðræðis. Það má segja að í eðli sínu snúist stjórnmál bara um þetta tvennt, að stjórnmál snúist bara um lýðræði og vald og hvernig lýðræðinu er fyrir komið, hverjum er gefin hlutdeild í lýðræðinu og hvernig farið er með valdið, hvernig valdinu er skipt eða hvernig valdinu er dreift eða hvernig því er safnað eða hvernig með það er farið. Um þetta snúast stjórnmál í grundvallaratriðum. Þess vegna er mjög mikilvægt að við höfum sæmilega skýra sýn á það hverju sinni hvernig þessum tveimur grundvallarþáttum í stjórnmálunum, valdinu og lýðræðinu, er fyrir komið í samfélaginu.

Við stjórnmálamenn og reyndar fleiri tölum gjarnan um það að talsvert mikil breyting sé að verða sérstaklega á valdinu, að það sé að verða tilfærsla valds og að tilfærslan sé frá stjórnmálamönnunum og til markaðarins, til fyrirtækjanna. Gjarnan er talað um þessi sterku stórfyrirtæki í því sambandi og að þau hafi í rauninni tögl og hagldir í samfélaginu í krafti fjármagnsins. Það er sem sagt talað um tilflutning valds frá stjórnmálamönnunum og yfir til markaðarins og til fyrirtækjanna. En það er líka talað um tilflutning valds frá stjórnmálamönnunum, frá þjóðþingunum og yfir til alþjóðastofnana og svo er náttúrlega líka um að ræða tilflutning valds frá þjóðþingunum — a.m.k. víðast hvar erlendis þó að það hafi verið í minna mæli hér — til sveitarstjórna eða nærsamfélagsins. Ýmsir hafa haldið því fram að þjóðþingin væru að tæmast af völdum og verkefnum, völd og verkefni þeirra væru annars vegar að flytjast til yfirþjóðlegra stofnana eða til markaðarins eða þá aftur niður til sveitarstjórnanna. Þetta þarf allt saman að skoðast og eins er mjög mikilvægt í þessu sambandi að skoða hlutverk fjölmiðla því að fjölmiðlar eru orðnir miklu öflugra valdatæki í nútímasamfélagi en þeir nokkurn tíma voru.

Það skiptir auðvitað máli að fjölmiðlarnir lúti aðhaldi eins og aðrir sem með völd fara í samfélaginu, hvort sem þau eru formleg eða óformleg. Allt vald verður að lúta aðhaldi. Það á við og á að eiga við um stjórnmálamennina, um löggjafarvaldið, framkvæmdarvaldið, dómsvaldið og eins á það að eiga við um fjölmiðlana. Þess vegna held ég að hér sé á ferðinni mjög mikilvægt mál og til þess fallið að við getum fengið einhverja staðfestingu á því hvað sé að gerast í íslensku samfélagi en ekki látið bara duga að tala um það eins og við höfum gjarnan gert.

Ég vil endilega koma inn á það hér af því að sá sem stóð í ræðustól á undan mér, Björgvin G. Sigurðsson þingmaður Samfylkingarinnar, minntist aðeins á þá vinnu sem nú á sér stað um stjórnarskrána og hvað hægt er að gera í því sambandi, að mér finnst mjög mikilvægt það sem hér hefur verið komið inn á, að hugað verði m.a. að dómsvaldinu sérstaklega og hvernig skipað er í Hæstarétt.

Það er dálítil gráglettni örlaganna, ef svo má að orði komast, að þeir sem gjarnan tala um málskotsrétt forseta Íslands og telja rangt að binda þennan málskotsrétt við eina persónu, eins og sagt er — þeir segja að ein persóna eigi ekki að fara með þetta mikla vald, þ.e. persónan forseti Íslands — þeir sem þannig tala hafa hins vegar gjarnan farið með mikið vald og það hefur verið ein persóna sem hefur farið með mikið vald sem felst í því að tilnefna þá sem sitja í Hæstarétti Íslands, þ.e. þá sem fara með æðsta dómsvaldið í landinu. Það er ein persóna. Það er dómsmálaráðherrann sem fer með það vald og aðrir koma ekki að því nema sem umsagnaraðilar. Hæstiréttur gerir það. En það er einn einstaklingur, einn ráðherra sem fer með það vald að skipa menn í æðsta dómstól þjóðarinnar. Auðvitað fylgir því mikil ábyrgð. Ef við horfum þar um bekki núna þá held ég að við þurfum nú ekkert að velkjast í vafa um það hvernig að þeim málum hefur verið staðið pólitískt í gegnum tíðina.

Mig langar líka áður en ég fer héðan úr ræðustól, virðulegur forseti, að nefna aðeins lýðræðið vegna þess að mér finnst stundum eins og lýðræðisvitund okkar og hugmyndir um lýðræði, ekki síst stjórnmálamanna margra hverra, séu svolítið vanþróaðar. Menn líta á lýðræðið sem það eitt að greiða atkvæði, kjósa á fjögurra ára fresti og svo kannski að gefa þjóðinni einhvern tíma kost á því að kjósa í einhverjum allsherjaratkvæðagreiðslum og þar við sitji. Menn líta svo á að þetta sé lýðræði. Svo koma upp mál sem deilur verða um og þá er sagt: „Það er búið að kjósa um þetta.“ Þegar Íraksmálið kom hér upp var sagt: „Það var kosið um það í síðustu kosningum.“ En var sérstaklega verið að kjósa um Íraksmálið í síðustu kosningum? Það var verið að kjósa stjórnmálaflokka á grundvelli almennrar stefnumótunar. En það var ekki verið að kjósa um einstök mál.

Þess vegna er mjög mikilvægt eftir að búið er að kjósa að stjórnvöld hugi að þeirri skyldu sem þau hafa til þess að vera í samráði bæði við aðra stjórnmálamenn í stjórnarandstöðu og við fólkið í landinu og hleypi fólkinu í landinu að málum og hlusti á raddir fólksins í landinu þegar einstök mál eru uppi. Ég vil leyfa mér að fullyrða að sveitarstjórnirnar í landinu séu miklu lengra komnar í þessu efni heldur en landstjórnin, að þær séu miklu lengra komnar og að þar séu miklu fleiri samráðsleiðir og miklu meira lýðræði í samskiptum þeirra við íbúa sína en er í samskiptum landstjórnarinnar við fólkið í landinu því að mér sýnist að það sé orðin vinnuregla hjá hæstv. núverandi ríkisstjórn að hafa sem minnst samráð, hvort sem um er að ræða samningu nýrra laga eða reglugerða eða stefnumótunar eða hvað það nú er. Þetta er ekki lýðræði. Það samræmist ekki hugmyndum um nútímalýðræði að vinna með þessum hætti og ég tel mjög mikilvægt að þetta sé skoðað líka. Lýðræði er alltaf að þróast. Lýðræði dagsins í dag er ekki eins og lýðræði gærdagsins og lýðræði morgundagsins verður heldur ekki með sama hætti. Það er mikilvægt að við höfum það í huga og þróum lýðræðið áfram í takt við nútímahugmyndir í stjórnmálum og stjórnun.