132. löggjafarþing — 14. fundur,  3. nóv. 2005.

Rannsókn á þróun valds og lýðræðis.

20. mál
[15:30]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil aðeins bæta nokkrum orðum inn í umræðuna um þá þingsályktunartillögu sem hér var mælt fyrir um rannsókn á þróun valds og lýðræðis í þjóðfélaginu.

Ég tek undir þær áhyggjur sem flutningsmenn hafa gagnvart þróun valds og lýðræðis í íslensku samfélagi á undanförnum árum. Þær áhyggjur beinast að því að valdið sé í auknum mæli að færast frá almenningi, sveitarstjórnum, Alþingi og öðrum sem kosnir eru eða tilnefndir af almannasamfélaginu, að vald og ákvarðanir sem áður voru þar færast í auknum mæli til framkvæmdarvaldsins en einnig til fyrirtækja og fjármálablokka og annarra samsteypa í atvinnulífinu.

Ég tek undir þær áhyggjur og ábendingar sem flutningsmenn, hv. þingmenn Samfylkingarinnar, koma inn á í þingsályktunartillögunni. Ég vil í því sambandi leggja áherslu á þá nálgun málsins hvernig við getum ræktað og styrkt lýðræðisvitundina. Tillagan miðar að því að gera úttekt og rannsaka hvernig farið hefur á síðustu árum og missirum og það er góðra gjalda vert. En við þurfum jafnframt að huga að því hvernig við getum ræktað og styrkt lýðræðisvitundina hjá einstaklingunum og samfélaginu því með sterkri meðvitaðri lýðræðisvitund einstaklinganna og samfélagsins getum við vænst þess að samfélagið þróist áfram í sterka og góða lýðræðisátt.

Í 2. mgr. tillögugreinarinnar þar sem fjallað er um rannsóknina segir, með leyfi forseta:

„Við rannsóknina verði jafnframt lagt mat á hvort og að hve miklu leyti völd hafa færst frá kjörnum fulltrúum til einkaaðila, m.a. með breytingu á efnahagslegu valdi í krafti tilfærslu eigna og fjármagns og hvort ákvarðanir og fjárfestingar stórra valdablokka í atvinnu- og fjármálalífi hafi nú verulega meiri áhrif en áður á afkomu og þróun þjóðarbúsins. Lagt verði mat á framhald þessarar þróunar fyrir efnahags- og atvinnulíf og með tilliti til eigna- og tekjutilfærslna í þjóðfélaginu.“

Ég tek undir þær áhyggjur sem þarna koma fram. Við höfum m.a. verið að einkavæða þjónustufyrirtæki. Nýverið var t.d. verið að einkavæða og selja Símann, fjarskiptamál sem snúa svo rækilega að hverjum einstaklingi. Með því að afhenda slíkt almannaþjónustufyrirtæki almennum viðskiptarekstri skerðist aðkoma almennings og þjóðkjörinna fulltrúa að því hvernig sú þjónusta er veitt. Enda urðum við svo rækilega meðvituð um það einungis nokkrum dögum eftir að fyrirtækið var selt því þá gleymir það því að það hafi einhverjar samfélagslegar skyldur þar sem það hefur starfað, samanber uppsagnir fólksins sem starfaði við að svara 118 á Ísafirði. Þetta var ekkert rætt við yfirvöld eða stjórnvöld, hvað þá við fólkið sem vann þar með nokkrum fyrirvara. Svo var það fólkið á Blönduósi og Siglufirði. Þetta var svona framhald á því. Einkavæðing almannaþjónustunnar leiðir til þess að valdið, áhrifin og afskiptin fjarlægjast. Sama getur gerst við einkavæðingu heilbrigðisþjónustunnar. Auðvitað er verið að færa aðkomu almannavaldsins frá þessu.

Ég tek líka undir það sem sagt er á síðustu blaðsíðu tillögunnar þar sem vitnað er í Sigurð Líndal lagaprófessor, með leyfi forseta:

„Ljóst er að hætta á því að mannréttindi séu skert stafar því ekki aðeins frá ríkinu heldur einnig frá valdamiklum aðilum á vettvangi einkaréttarins.“

Við höfum rækilega verið minnt á þetta á Alþingi þegar stjórnvöld, reyndar með stuðningi meiri hlutans, ákváðu að skera niður fjárveitingar til sjálfstæðrar mannréttindaskrifstofu og gera hana þar með, ef starfrækja ætti hana áfram, háða annarri fjáröflun í staðinn fyrir að þingið sjálft veitti henni skjól eins og eðlilegast væri.

Hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir nefndi þjóðaratkvæðagreiðslur. Ég tek undir með hv. þingmanni hversu mikilvægar þjóðaratkvæðagreiðslur eru og bendi t.d. á í því sambandi að Vinstri hreyfingin – grænt framboð flutti einmitt tillögu um að fram færi þjóðaratkvæðagreiðsla um Kárahnjúkamálið, eitt umdeildasta stórmál meðal þjóðarinnar á síðari árum. Við lögðum þar afdráttarlaust til að það mál færi í þjóðaratkvæðagreiðslu og að þjóðin fengi að segja skoðun sína á því hvort hún vildi fara inn á þá braut eða ekki. Sama gerðum við með sölu Símans. Við lögðum það til. Skoðanakannanir höfðu sýnt að nærri 80% þjóðarinnar voru andvíg sölu Símans, viðamiklar skoðanakannanir hver á fætur annarri. En ríkisstjórnin ákvað samt að hunsa það og keyra söluna í gegnum Alþingi. Hefði ekki verið sterkara og eðlilegra um svo umdeilt mál — stærstu einkavæðingu Íslandssögunnar, sögðu einkavæðingarpostularnir og börðu sér á brjóst — að láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort þetta væri það sem þjóðin vildi? Ég tek undir áherslur flutningsmanna sem hafa komið fram í ræðum þeirra að þjóðaratkvæðagreiðslur eigi að vera miklu sterkara afl í umdeildum málum. Ef við rifjum upp Kárahnjúkavirkjun þá voru um hana mjög skiptar skoðanir í samfélaginu og mjótt á munum meðal þjóðarinnar í skoðanakönnunum. Við vitum að málið var keyrt í gegnum Alþingi án þess að fyrir lægju lagalegar heimildir fyrir gjörningunum. Meira að segja hefur bygging álverksmiðjunnar á Reyðarfirði ekki enn fengið starfsleyfi. En samt er allt komið á fullt. Við sjáum hvers konar lýðræðisleg vinnubrögð þarna eru í gangi. Ákvörðun er tekin um virkjunina gegn niðurstöðu umhverfismatsins. (Gripið fram í.) Ákvörðun er tekin um að byggja verksmiðjuna án þess að fyrir liggi lögformlegt starfsleyfi. Hefði ekki verið nær að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu um Kárahnjúkavirkjun á sínum tíma?

Frú forseti. Ég tek undir margar áherslur í þingsályktunartillögunni.