132. löggjafarþing — 14. fundur,  3. nóv. 2005.

Ferðasjóður íþróttafélaga.

24. mál
[15:46]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þessi ræða hv. þm. Hjálmars Árnasonar og þeirra félaga um að styðja við ferðir íþróttafólks er góð. Það sem vekur athygli er að nánast allir flutningsmenn eru úr meiri hlutanum, alla vega úr bæði Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki. (DJ: Og Samfylkingunni.) Já, en Samfylkingin er ekki enn komin í meiri hlutann. Nú eru þessir menn líka með fjárlagagerðina á sinni ábyrgð.

Frú forseti. Þetta mál hefur verið flutt áður. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs með hv. þm. Steingrím J. Sigfússon í broddi fylkingar fluttum einmitt breytingartillögu við fjárlögin á síðastliðnu hausti í kjölfar þessarar tillögu þeirra ágætu þingmanna sem hér hafa verið nefndir um að settir yrðu peningar í þetta. Við lögðum til að lagðar væru 150 millj. kr. í þennan sjóð sem hv. þingmaður var að mæla fyrir í þriðja sinn. Ekki gátu þessir þingmenn þá stutt málið við afgreiðslu fjárlaganna. Nei. Það var nóg að mæla fyrir þessu og hafa um það falleg orð á þingi en þegar það kom raunverulega til kastanna að standa við það greiddi enginn þeirra atkvæði með því. Þess vegna spyr ég hv. þm. Hjálmar Árnason: Ætlar hann nú að standa með okkur þingmönnum Vinstri grænna um að þetta verkefni fái fjármagn en ekki bara fögur orð hér í þingsal?