132. löggjafarþing — 14. fundur,  3. nóv. 2005.

Ferðasjóður íþróttafélaga.

24. mál
[15:49]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður fór að tala um muninn á flokkunum, Framsóknarflokknum og Vinstri grænum. Vinstri grænir vilja auðvitað standa við orð sín og láta orðum fylgja athafnir og eru ekki að flytja hér sýndarmál. Þetta er hið besta mál, að stofnaður verði sjóður til að styrkja og styðja við ferðir íþróttafólks um landið, afar brýnt. Og þingmenn hljóta að vera almennt sammála um það, annars væru ekki þingmenn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins að flytja þetta mál, ef þeir teldu að þeir væru að flytja það í mikilli óþökk. Eða er það svo? Efast þeir um stuðning sinna eigin flokksmanna við svona gott mál? Það væri dapurlegt. Þá væri betra fyrir hv. þm. Hjálmar Árnason að styðja Vinstri græna sem vilja ganga til enda og það fylgi þessari góðu hugmynd peningar þannig að hún komist í framkvæmd en ekki bara sýndarmennska eins og mér finnst liggja allt of mikið í orðum hv. þingmanns. Ef þessu verkefni fylgja peningar kemst það í framkvæmd og það er það sem við vinstri grænir viljum.