132. löggjafarþing — 14. fundur,  3. nóv. 2005.

Ferðasjóður íþróttafélaga.

24. mál
[15:52]
Hlusta

Flm. (Hjálmar Árnason) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég fagna efnislegum stuðningi hv. þingmanns við þetta mál og það er svo sem í samræmi við allar aðrar umsagnir. Hvers vegna það hefur ekki náð fram að ganga? ég vildi að ég kynni svarið við því. Málinu hefur, eins og hv. þingmaður ugglaust veit, í tvígang verið vísað til hv. menntamálanefndar og þó að a.m.k. tveir af flutningsmönnum þingsályktunartillögunnar eigi sæti í menntamálanefnd hefur það einfaldlega ekki náðst þaðan út. Hvort það er vegna þess að aðrir í hv. menntamálanefnd hafi ekki meiri áhuga á því en svo eða einhver önnur ástæða, ég kann ekki að nefna það, en það er það sem við ætlum að láta virkilega reyna á. Ég fagna því að eiga þá stuðning hv. þingmanns og hans flokks í því að ná þessu góða máli út úr nefndinni því eins og áður hefur komið fram hafa engin rök eða engin andstaða komið fram við málið.