132. löggjafarþing — 14. fundur,  3. nóv. 2005.

Ferðasjóður íþróttafélaga.

24. mál
[15:54]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Það er gleðilegt að heyra að það sé mikil samstaða um málið. Mér finnst sérkennilegt þegar menn koma hingað með mál í þriðja skiptið að vera þá ekki búnir að kanna það á hverju strandaði. Nú er ekki það langt á milli manna í menntamálanefnd og úr því að tveir meðflutningsmanna eru í nefndinni finnst mér hálfafkáralegt að ekki sé búið að kanna þetta þannig að við getum þá komist hjá því skeri í þriðju umferð. Mér fyndist það eðlilegt. Ég vonast til þess að menn komist þá að því ef þessi umræða stendur eitthvað lengra fram á daginn, að hv. þm. Hjálmar Árnason kanni það, noti tækifærið til þess á meðan umræðan stendur að kanna á hverju hafi steytt þannig að hægt verði að komast hjá því að málið strandi enn á ný í hv. menntamálanefnd. En mér skilst að þar fari Sjálfstæðisflokkurinn með formennsku og e.t.v. er það sá flokkur sem hefur komið í veg fyrir að málið nái fram að ganga. Mér fyndist fróðlegt að fá nánari upplýsingar um það.