132. löggjafarþing — 14. fundur,  3. nóv. 2005.

Ferðasjóður íþróttafélaga.

24. mál
[16:20]
Hlusta

Flm. (Hjálmar Árnason) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég er bara gapandi hissa. Hér kemur myndarlegur fyrrverandi starfsmaður íþróttahreyfingar, nýkominn inn á þing, og ég hélt að menn kæmu glaðir og reifir til þings en ekki eins og rótandi naut í einhverri geðillsku. Mér finnst mjög alvarlegt þegar hv. þingmaður sakar starfsfélaga sína um að flytja mál sem engin meining sé á bak við. Þar með er hann í rauninni að leggja að jöfnu líklega 80–90% af þeim þingmannamálum sem flutt eru og daga uppi í nefndum. Það tengist einmitt máli sem hér var á dagskrá og flutt af hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, um tengsl og sjálfstæði löggjafarvalds gagnvart framkvæmdarvaldi, dómsvaldi og þar fram eftir götunum.

Það liggur alveg ljóst fyrir og það má hv. þingmaður vita að hann er ekki einn um að hafa starfað innan íþróttahreyfingar, ég hygg að allir flutningsmenn þessarar þingsályktunartillögu hafi meira og minna starfað innan íþróttahreyfingar og geri enn í dag. Þess vegna er málið flutt. Það er flutt í þeim tilgangi að Alþingi marki sér stefnu til þess að geta jafnað þennan aðstöðumun. Ef það er að vekja falskar væntingar að setja ákveðna stefnu fram, kynna hana og reyna að beita sér fyrir henni, þá hefur hv. þingmaður misskilið störf Alþingis og ætti að hugleiða það aðeins betur. Það gildir um öll mál sem hér eru flutt. Ég trúi því að allir hv. þingmenn sem flytja mál geri það í bestu trú og meini það.

Hins vegar er staðreyndin einfaldlega sú að 80–90% af þingmannamálum daga uppi. Og það get ég sagt hv. þingmanni að ég minnist þess ekki af því að hann kom nú aðeins inn í hv. menntamálanefnd að hann sýndi þessu máli mikinn áhuga þar.