132. löggjafarþing — 14. fundur,  3. nóv. 2005.

Ferðasjóður íþróttafélaga.

24. mál
[16:23]
Hlusta

Flm. (Hjálmar Árnason) (F) (andsvar):

Frú forseti. Nú mætti ætla af orðum hv. þingmanns að hann sé að mælast til þess að við drögum málið til baka. Ég á bágt með að trúa því en það má skilja orð hans svo. Við munum hins vegar ekki gera það og við munum áfram gera okkar til þess að málið nái áfram. (ÖS: „We shall persist.“) Hv. þingmaður veit líklega minnst um það hvað gert var til þess að reyna að ná málinu áfram.

En ég árétta það að ég varð ekki var við mikinn stuðning m.a. frá stjórnarandstöðu um að málið næði fram að ganga innan nefndarinnar. Af hverju? Vegna þess að það var tekið eins og flest þingmannamál, að þau eru létt látin liggja. En það má hv. þingmaður vita að meðflutningsmenn mínir lögðu mikið á sig til þess að ná málinu fram. Því miður gekk það ekki. Við flytjum hins vegar málið áfram af því að við ætlum okkur að ná því fram.

Einn góður starfsfélagi okkar sagði einhvern tíma að tæki tíu ár að koma góðum málum í gegn. Ég er bjartsýnn maður að eðlisfari og trúi því að nú þegar málið er flutt í þriðja sinn munum við ná því í gegn. Ég heiti á stuðning hv. þingmanns um að hjálpa okkur við að ná því út úr hv. menntamálanefnd.