132. löggjafarþing — 14. fundur,  3. nóv. 2005.

Ferðasjóður íþróttafélaga.

24. mál
[16:31]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Flutningsmaður, hv. þm. Hjálmar Árnason, sagði að einhverjir hefðu nefnt það að fyrrabragði að fá að vera með á umræddri þingsályktunartillögu. Ég hef ekki gert það hingað til, en ég vil að það verði skráð hér að ég vonast til þess að ég geti þá orðið flutningsmaður næst ef þingsályktunartillagan nær ekki fram að ganga, vegna þess að hér er um mjög mikilvægt mál að ræða.

Það er alveg rétt sem kom fram hjá hv. þm. Dagnýju Jónsdóttur að staðan á landsbyggðinni er að þrengjast. Það er ákveðinn samdráttur, sem er áhyggjuefni. Við sjáum þetta víða, sérstaklega í sjávarbyggðunum eins og við fórum yfir í dag, ég og hv. þm. Hjálmar Árnason, að aflaheimildir eru að minnka. Samdráttur er m.a. í kjördæmi hans, Vestmannaeyjum, í sjávarbyggðinni þar. Þess vegna finnst mér þetta vera þannig mál að við ættum að líta til þess að tómstundastarf og íþróttastarf barna geti gengið eðlilega fyrir sig þó svo að þessi byggðarlög gangi í gegnum ákveðnar hremmingar nú um stundir. En ég skil einnig þær áhyggjur sem fram komu hjá hv. þm. Valdimari Leó Friðrikssyni, vegna þess að ég heyri það í máli hans að hann efast um að raunverulegur vilji búi að baki. Maður getur skilið það að menn efist um raunverulegan vilja og að frekar sé um eitthvert áróðursmál að ræða. Við höfum séð þvílíkar tillögur áður. Við höfum séð t.d. þingsályktunartillögu um að kanna kosti og galla færeyska fiskveiðistjórnarkerfisins. Síðan virðist það í rauninni vera eitthvert áróðursbragð en ekki raunverulegur vilji að kanna það sem ætti í rauninni að vera eðlilegt. Við ræðum það á eftir og ég vonast til þess að menn komi til þeirrar umræðu og ræði það mál, sérstaklega fyrri flutningsmenn.

Við höfum líka æ ofan í æ séð tillögur um að flytja Landhelgisgæsluna á Suðurnesin, sem því miður virðist ekki búa mikil alvara á bak við. Ég vona svo sannarlega að meiri alvara sé á bak við þessa tillögu en svo að um sé að ræða eitthvert áróðursbragð eins og ég fann að hv. þm. Valdimar Leó Friðriksson skynjaði málið. En þegar maður skoðar þessa þingsályktunartillögu og þau afdrif sem tillögur Vinstri grænna fengu hvað varðar fjárlögin, þá hefur maður vissulega vissar efasemdir. Ég vona að flutningsmaður, hv. þm. Hjálmar Árnason, skilji að það er eðlilegt að hafa efasemdir um svona tillögu sem fram kemur, ef menn vilja ekki veita fjármagn í hana. Sérstaklega líka þegar menn hafa ekki kannað það á hverju steytti. Þegar menn fara með málið í þriðja sinn í gegn finnst mér að menn eigi að kanna það á hverju steytti í raun og veru.

En það er ekki eingöngu, eins og kom fram hjá hv. þm. Dagnýju Jónsdóttur, að atvinnulífið á landsbyggðinni eigi undir högg að sækja. Þetta kemur einnig niður á stöðu sveitarfélaganna. Ég tel það vera áhyggjuefni, sérstaklega fyrir flokka sem búnir eru að vera heilan áratug í stjórn, að hafa ekki reynt að koma að einhverju leyti til móts við þau sveitarfélög. Fram kom á fundi í gær um stöðu sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, sem ég gat því miður ekki sótt, að þar er staðan ansi þröng. Mér finnst að þingmenn stjórnarliðsins ættu að veita þessu máli brautargengi vegna þess að þetta getur að einhverju leyti rétt við bága stöðu landsbyggðarinnar sem stjórnarflokkarnir bera vissulega ábyrgð á og þeir skulda fólkinu í rauninni. Búið er að svipta fólk atvinnuréttindum. Við sjáum það á Bíldudal. Og hvers vegna ekki að rétta íþróttafélaginu á Bíldudal þess vegna hjálparhönd? Mér finnst það. Mér finnst það eðlileg krafa og ég vona svo sannarlega að menn meini eitthvað með því að vera að bera þessa tillögu hér fram í þriðja sinn. Að öðru leyti styðjum við í Frjálslynda flokknum þetta heils hugar, eins og fram hefur komið.

En við minnum á annað mál sem skiptir verulega miklu máli fyrir íþróttahreyfinguna og ég vonast til, af því að við höfum sýnt stuðning okkar í þessu máli, að við fáum það líka að einhverju leyti endurgoldið og menn líti yfir það mál. Það varðar löggæslukostnað sem minni sveitarfélög á landsbyggðinni eru rukkuð um. Það lendir sérstaklega illa á íþróttahreyfingunni og ég tala nú ekki um í kjördæmi hv. flutningsmanns, Vestmannaeyjum. Þeir eru með sína þjóðhátíð og þurfa að greiða gríðarlega háan kostnað við löggæslu. Reykvíkingar hafa sína menningarhátíð, menningarnótt, og greiða ekki eina krónu fyrir þá hátíð sem við sækjum þó öll héðan og þaðan af landsbyggðinni. Ég vona að menn sýni landsbyggðinni og sérstaklega íþróttahreyfingunni sanngirni í því máli og skoði einnig það mál sem ég flyt enn og aftur um löggæslukostnað, þá ósanngirni sem t.d. Vestmannaeyingum er sýnd. Stjórnarflokkarnir skulda fólkinu á landsbyggðinni. Mér finnst vera lágmark að menn standi á bak við þessa tillögu og fari í alvöru að ýta henni í gegnum menntamálanefnd, frú forseti.