132. löggjafarþing — 14. fundur,  3. nóv. 2005.

Kostir og gallar færeyska fiskveiðistjórnarkerfisins.

27. mál
[17:05]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður hreyfði ákaflega mikilvægu máli þegar hann gagnrýndi þá múra sem Hafrannsóknastofnun hefur reist í kringum sig. Hv. þingmaður gat t.d. skoðana og gagnrýni Jóns Kristjánssonar fiskifræðings og benti á að honum er skipulega haldið utan við þá umræðu sem á sér stað í tengslum við stjórnkerfi fiskveiða af hálfu stjórnvalda. Ég get ekki annað en tekið undir þetta og ég get ekki annað en gagnrýnt Hafrannsóknastofnun mjög alvarlega fyrir það framferði.

Jón Kristjánsson, sá fiskifræðingur sem hér var nefndur, var t.d. eini fiskifræðingurinn sem hafði rétt fyrir sér um þróun rækjustofns á Flæmska hattinum og fór þar gegn öllum viðteknum skoðunum annarra fiskifræðinga. Reynslan sýndi að hann hafði rétt fyrir sér. Aftur og aftur höfum við á síðustu árum séð það gerast að þeir sem stýra Hafrannsóknastofnun eru svo önnum kafnir við að verja kerfi sem hefur ekki staðið undir væntingum að þeir ýta með skipulegum hætti frá þeim hugsuðum og vísindamönnum sem gagnrýna það kerfi. Ég tel að það sé ákaflega neikvætt og ráði miklu um það að við búum ekki við alvarlega og frjóa umræðu um þær rannsóknir sem hljóta að vera undirstaða undir nýtingu hins mikilvæga stofns, þorskstofnsins.

Kvótakerfið var ekki sett upp til þess að hagræða í sjávarútvegi eins og menn tala núna. Það var sett upp sem fiskverndarkerfi í kjölfar svartra skýrslna um ástand stofnsins og það hlýtur að vera eðlileg krafa að kerfið verði tekið til rækilegrar skoðunar, ég tek því undir með hv. þm. Sigurjóni Þórðarsyni.