132. löggjafarþing — 14. fundur,  3. nóv. 2005.

Kostir og gallar færeyska fiskveiðistjórnarkerfisins.

27. mál
[17:20]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er að vissu leyti staðfesting á því sem ég hélt fram, finnst mér. Mér finnst að okkur miði kannski frekar áfram í umræðunni ef við komum okkur niður á það að við séum með hluti í höndunum sem séu ekki eins nákvæmir og um hefur verið talað. Við höfum til dæmis séð niðurstöðu frá Hafrannsóknastofnun upp á hálft eða eitt tonn, eða hvað, í heilum fiskstofnum.

Auðvitað er þetta ekki svona, auðvitað eru menn ekki með svona nákvæmar aðferðir til að mæla fiskstofnana. Menn verða þess vegna að viðurkenna að þetta séu nálganir. Það er annað sem ég vil benda á, Hafrannsóknastofnun stóð fyrir því að hér eru menn með svokallaða 25% reglu. Þegar hún var tekin upp var það ríkjandi skoðun á Hafrannsóknastofnun að við værum að tala um einn fiskstofn í þorski í landinu. Nú hafa menn komist að þeirri niðurstöðu að stofnarnir séu margir.

Til að vernda þennan fiskstofn fundu menn út að hafa þyrfti þessa 25% reglu. Nú eru menn reyndar komnir á þá skoðun að prósentan eigi að vera lægri, en þegar menn eru farnir að horfast í augu við það að stofnarnir séu margir, ættkvíslarnar séu margar, hlýtur þessi regla að mega teljast býsna vafasöm. Þá er spurningin auðvitað þessi: Ef menn hafa ofnýtt marga litla stofna, hvernig stendur á því að litlu stofnarnir hafa stækkað en stærsti stofninn hefur minnkað?

Mér finnst þetta sönnun þess að fara þurfi vandlega yfir þessi mál.