132. löggjafarþing — 14. fundur,  3. nóv. 2005.

Kostir og gallar færeyska fiskveiðistjórnarkerfisins.

27. mál
[17:33]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hlustaði með athygli á skemmtilega ræðu hv. þingmanns Össurar Skarphéðinssonar um það hvernig við stöndum að rannsóknum og hvernig við stöndum ekki að þeim, hvernig við tökum eiginlega ekki á rökræðu um misjafnar forsendur fyrir fiskifræðinni og hvernig við virðumst ekki þola það stundum að taka þá umræðu efnislega, ja, eigum við að segja kannski, fyrr en áratugum eftir að hún kom fram.

Ég man eftir umræðu frá því ég var ungur maður, háseti á netabátum suður í Breiðafirði, þegar reyndustu fiskimenn Vestfirðinga, Hálfdán Einarsson og Jakob úr Bolungarvík, deildu um það þá við forustumenn Hafrannsóknastofnunar hvort fiskurinn hrygndi í Breiðafirði svo einhverju næmi. Um það voru miklar deilur. Því var haldið fram að hrygningin færi fyrst og fremst fram fyrir sunnan Reykjanes o.s.frv. og þessar kenningar hafa nú verið lífseigar fram á síðustu ár þó að það sé nú að breytast.

Af því að ég veit að hv. þingmaður Össur Skarphéðinsson er vel menntaður í þessum fræðum, líffræðinni, vil ég heyra hann fjalla um það hvers vegna þorskstofninn á Íslandsmiðum stækkaði svo ofboðslega upp úr 1920. Hvað olli því á fyrstu áratugum aldarinnar að þorskstofninn stækkaði svo sem raun varð og varð gríðarstór hér alveg fram undir stríð? Skyldi það vera vegna þess að Norðmenn kláruðu hvalinn 1915? Við settum hvalveiðibann þá eftir margra áratuga (Forseti hringir.) veiði Norðmanna.