132. löggjafarþing — 14. fundur,  3. nóv. 2005.

Kostir og gallar færeyska fiskveiðistjórnarkerfisins.

27. mál
[17:41]
Hlusta

Flm. (Magnús Þór Hafsteinsson) (Fl) (andsvar):

Virðulegur forseti. Af því að hv. þingmaður Össur Skarphéðinsson minntist áðan á vísindin — ég var honum hjartanlega sammála, öllu því sem hann sagði — þá datt mér í hug að spyrja hann aðeins nánar út í einmitt skoðanir hans á þessum málum. Það er alveg rétt sem hann sagði að hér á landi hafa þeir vísindamenn sem bera ábyrgð á þessari ráðgjöf sem notuð er af stjórnvöldum múrað sig inni á bak við háa veggi og bregðast yfirleitt reiðir við ef þeir verða gagnrýndir. Hér er árlega gefin út skýrsla, sú skýrsla sem ég held hér á, Nytjastofnar sjávar. Hún er yfirleitt lögð fram á vorin eða snemmsumars, í júníbyrjun eftir að Alþingi hefur hætt störfum og þingmenn eru farnir heim. Hún fæst því yfirleitt ekki rædd af neinu viti í þjóðfélaginu. En síðan eru teknar ákvarðanir út frá því sem stendur í þessari skýrslu.

En af því að við erum að ræða þingsályktunartillögu um það hvernig þessum málum er hagað í Færeyjum þá er það þannig í Færeyjum að þar koma fiskifræðingar með skýrslu eins og þessa. Síðan er starfandi nefnd, fiskidaganefnd svokölluð, og í henni eru hagsmunaaðilar, útgerðarmenn, sjómenn, fólk úr fiskvinnslunni og aðrir slíkir og þeir koma líka með sína skýrslu, eða sína ráðgjöf. Báðum þessum skýrslum er skilað til sjávarútvegsráðherrans í Færeyjum.

Hvað gerir hann svo? Jú, hann sest niður og býr til frumvarp um það hvernig veiðum skuli stýrt við Færeyjar á næsta fiskveiðiári sem eins og hér hefst 1. september ár hvert. Þetta er sem sagt frumvarp sem farið er með inn í færeyska Lögþingið á Ólafsvöku um sumarið og þar eru þessi mál rædd í þinginu. Síðan er það þingið í Færeyjum sem tekur um það ákvörðun hvernig veiðum skuli stýrt við Færeyjar á komandi fiskveiðiári.

Væri þetta eitthvað sem við gætum tekið okkur til fyrirmyndar hér á landi?