132. löggjafarþing — 14. fundur,  3. nóv. 2005.

Kostir og gallar færeyska fiskveiðistjórnarkerfisins.

27. mál
[17:43]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það væri hægt að taka þetta kerfi Færeyinga sér til fyrirmyndar að því leyti að leggja meira upp úr því sem þeir sem vinna í greininni og hafa af henni praktíska reynslu segja. Hv. þingmaður Guðjón Arnar Kristjánsson benti á það áðan þegar við ræddum tengslin milli stórþorsks og nýliðunar að nákvæmlega sömu tilfinningu höfðu karlarnir sem kenndu honum í Sjómannaskólanum árið 1966. Þar var til praktísk reynsla sem benti til sömu niðurstöðu og Páll Bergþórsson fékk síðan út með skemmtilegum útreikningum löngu síðar en fiskifræðingarnir við Hafró sáu ekki.

Ég er þeirrar skoðunar að það sé orðið mjög óheillavænlegt hvað þessi umræða er lokuð innan veggja Hafró. Við ræddum það fyrr í dag í þessari umræðu hvernig maður hefur stundum á tilfinningunni að öðrum og gagnrýnni skoðunum sé skipulega haldið frá. Annað birtingarform á þessari skoðanaeinokun Hafrannsóknastofnunar birtist í því að við þingmenn getum ekkert lengur hringt í fiskifræðinga og fengið upplýsingar. Við fáum bara upplýsingar sem við þurfum á að halda í gegnum forstjóra stofnunarinnar. Þannig er verið að straumlínulaga skoðanir Hafró og koma þeim á framfæri bara í gegnum einn munn, (Gripið fram í: Einn kanal.) einn farveg, og fyrir vikið verður þetta ákaflega einsleitt. Ég er þeirrar skoðunar að það þurfi hömluleysi hinnar frjálsu hugsunar sem ríkir við háskóla og þar sem samkeppni hugmyndanna er við lýði til þess að brjótast út úr þessum farvegi.

Eitt örstutt dæmi: Hv. þingmaður Jóhann Ársælsson nefndi hér 25% aflaregluna. Enginn maður á Íslandi getur sýnt fram á hvernig hún var fundin. Ég hef farið í gegnum það. Ég barðist í gegnum það og skildi ekki. Ég fór og spurði sérfræðingana og þeir sýndu mér útreikninga sem leiddu að annarri niðurstöðu.